Játar að hafa myrt Wieselgren

Lögreglu og sjúkralið á vettvangi í Visby í gær.
Lögreglu og sjúkralið á vettvangi í Visby í gær. AFP

Sænska lögreglan heldur því fram að fagleg störf Ing-Marie Wieselgren, sem var þekktur sænskur geðlæknir, hafi verið ástæða þess að hún var stungin til bana um hábjartan dag í gær. 

Wieselgren var 64 ára gömul. Ráðist var á hana rétt fyrir kl. 14 að staðartíma í bænum Visby í Svíþjóð í gær. Þar funda nú margir af æðstu stjórnmálamönnum landsins. 

Wieselgren starfaði lengi sem geðlæknir og var einnig verkefnastjóri hjá sambandi sænskra sveitarfélaga. 

AFP

Fram hefur komið í sænskum fjölmiðlum að árásarmaðurinn tengist nýnasistasamtökunum NMR, en ríkissaksóknarinn Petra Gotell sagði á blaðamannafundi í dag að ekki væri að sjá neinar tengingar þar á milli og að árásarmaðurinn hefði ennfremur verið einn á ferð. 

Gotell sagði jafnframt, að það væri mat lögreglunnar að maðurinn hafi ætlað sér að ráðast á Wieselgren og það gæti verið vegna starfa hennar innan sænska geðheilbrigðiskerfisins og að hún hefði verið þekkt. 

Maðurinn sem er í haldi er 33 ára gamall. Hann hefur játað sök. Gotell segir að hann hafi glímt við geðræn vandamál og að hann hafi ráðist á Wieselgren undir áhrifum vímuefna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert