Forseti Írans fundar með Pútin og Erdogan

Ebrahim Raisi, forseti Írans.
Ebrahim Raisi, forseti Írans. AFP

Forseti Írans, Ebrahim Raisi, fundar í dag með Vladimír Pútín, forseta Rússlands, og Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, til að ræða stríðið í Sýrlandi í ljósi þess að innrás Rússlands í Úkraínu hefur yfirskyggt slíkar viðræður. 

Öll þrjú löndin tengjast Sýrlandi á einhvern hátt, þar sem Íran og Rússland sýna stuðning með stjórnarfari forseta landsins og Tyrkland styður uppreisnarsveitir þar.  

Önnur utanlandsferð Pútíns

Umræddur leiðtogafundur verður sá fyrsti sem Raisi stendur fyrir frá því hann tók við embætti á síðasta ári, ásamt því að þetta markar aðra utanlandsferð Pútíns frá innrásinni í febrúar. Erdogan hefur mánuðum saman reynt að ræða við Pútín um ríkjandi spennu í heimsmálum.

Samkoman er einnig haldin vegna þess að Erdogan hótaði seint á síðasta ári að hefja sókn í norðurhluta Sýrlands gegn kúrdískum hermennum. Þá hefur Íran varað við þeim afleiðingum sem sóknin gæti haft á svæðið. 

Spenna vegna heimsóknar Bandaríkjaforseta

Joe Biden Bandaríkjaforseti heimsótti á dögunum Mið-Austurlönd og átti leið hjá óvinalöndum Írans, Ísraels og Sádí-Arabíu. Í kjölfar ferðarinnar sendu leiðtogar landanna þriggja frá sér sameiginlega yfirlýsingu sem undirstrikaði diplómatískar tilraunir til að koma í veg fyrir að Íran þrói kjarnorkuvopn.

Á sunnudaginn sakaði talsmaður utanríkisráðuneytis Írans, Nasser Kanani, Bandaríkin um að hafa „enn og aftur gripið til misheppnaðrar stefnu tengdri Írans-fælni og reynt að skapa spennu á svæðinu.“

Ræða aðferðir við flutning á korni

Pútín og Erdogan, sem komu til Teheran í gær,  hittast í höfuðborg Írans í dag til að ræða aðferðir til að flytja út korn frá Úkraínu. Innrás Rússa í Úkraínu, sem hófst 24. febrúar, hefur hamlað sendingum frá einum stærsta útflytjanda heims á korni og vakið ótta um matvælaskort á heimsvísu.

Tyrkland er aðili að NATO og er eitt þeirra ríkja sem á samskipti bæði við Rússland og Úkraínu, en landið hefur beint spjótum sínum að því að hefja flutningar á korni á ný.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert