Nýr forseti kjörinn í stað þess útskúfaða

Ranil Wickremes­ing­he er nýkjörinn forseti Srí Lanka.
Ranil Wickremes­ing­he er nýkjörinn forseti Srí Lanka. AFP

Ranil Wickremes­ing­he, forsætisráðherra Srí Lanka, var rétt í þessu kjörinn forseti landsins. Þingmenn Srí Lanka kusu forsetann sem mun, að óbreyttu, sitja út kjörtímabil Gota­baya Rajapaksa, fyrrverandi forseta, sem var rétt rúmlega hálfnað þegar hann sagði af sér.

Hann hefur setið sem staðgengill forseta í um viku eða síðan fyrrverandi forseti landsins flúði heimalandið eftir mikil mótmæli gegn honum og stjórnarháttum hans sem sagðir eru hafa bætt gráu ofan á svart í slæmu efnahagsástandi Srí Lanka. 

Wickremesinghe hlaut 134 atkvæði af 225. Þrír höfðu boðið sig fram en Dullas Alahapperuma fékk næstflest atkvæði eða 82. Anura Kumara Dissanayake bauð sig einnig fram og fékk einungis þrjú atkvæði.

Tók afstöðu gegn mótmælendum

Hörð afstaða hins nýkjörna forseta gegn mót­mæl­end­um hef­ur fallið í kramið hjá þing­mönn­um sem hafa þurft að þola of­beldi af hálfu mótmælenda.

Srí Lanka er nú statt í erfiðustu efna­hagskreppu lands­ins frá upp­hafi. Stjórn­mála­kerfið þar er flókið og þaðan hafa borist frétt­ir af spill­ingu.

Land­inu hef­ur reynst ómögu­legt að fjár­magna nauðsyn­leg­asta inn­flutn­ing síðan seint á síðasta ári og hef­ur rík­is­stjórn­in síðan þá ekki náð að standa skil á greiðslum af erlendum skuld­um sem nema tugum milljarða bandaríkjadala. Óánægja meðal íbúa hef­ur vaxið mánuðum sam­an vegna al­var­legs mat­ar- og ol­íu­skorts, met­verðbólgu og langvar­andi raf­magns­leys­is.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert