Einn látinn eftir ofsafengið hvassviðri á tónlistarhátíð

Medusa Circus of Madness hátíðin fer fram nærri Valencia-borg á …
Medusa Circus of Madness hátíðin fer fram nærri Valencia-borg á Spáni Ljósmynd/Wikipedia.org

Einn er látinn og fjöldi fólks er slasað eftir að ofsafengið hvassviðri varð til þess að svið tónlistarhátíðar á Spáni féll saman.

Atvikið átti sér stað á Medusa Circus of Madness-tónlistarhátíðinni á Cullera-strönd, um 50 kílómetra frá Valencia-borg klukkan fjögur í nótt. Um 320 þúsund manns eru á hátíðinni og átti hún að standa yfir til morgundagsins en henni hefur verið frestað.

Viðbragðsaðilar greindu frá því á Twitter að einn hafi látist er sviðið féll saman, þrír eru alvarlega særðir og um fjörtíu aðrir hlutu minniháttar meiðsl. Fjölmiðlar á Spáni greina frá því að hinn látni sé maður á þrítugsaldri.

Spænska veðurstofan greinir frá því að vindhviður hafi náð um 80 kílómetrahraða á klukkustund. 

Skipuleggjendur hátíðarinnar sögðust harma atvikið. 

Í yfirlýsingu sögðu þeir að „ofsafengið hvassviðri“ hafi átt sér stað rétt fyrir klukkan fjögur sem leiddi til þess að rýma þurfti tónleikasvæðið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert