Hætta að selja talkúm barnapúðrið

Barnapúður frá Johnson & Johnson.
Barnapúður frá Johnson & Johnson. AFP

Hrein­læt­is- og lækn­inga­vöru­fram­leiðand­inn Johnson & Johnson mun hætta að framleiða og selja talkúm barnapúður. Varan hefur verið seld í meira en 130 ár. 

BBC greinir frá því að tvö ár eru síðan fyrirtækið hætti að selja barnapúðrið í Bandaríkjunum eftir að þúsundir kvenna höfðuð mál gegn fyrirtækinu. Telja konurnar að talkúmið í barnapúðrinu hafi verið asbest­mengað og því valdið krabbameini í eggjastokkum. 

Johnson & Johnson hefur ítrekað sagt að fjölmargar óháðar rannsóknir sýni að öruggt sé að nota barnapúðrið.

Í yfirlýsingu sagði að afstaða fyrirtækisins hafi ekki breyst þrátt fyrir að hætt væri að selja talkúm barnapúðrið. 

„Óháðar rannsóknir gerðar af sérfræðingum sýna að talkúm barnapúðrið er öruggt, innheldur ekki asbest og veldur ekki krabbameini.“

Barnapúður sem fyrirtækið mun framvegis selja inniheldur maíssterkju og er nú þegar selt í fjölmörgum ríkjum. 

Talkúm er steinefni sem finnst í leir­kennd­um jarðvegi og er sótt í nám­ur neðanj­arðar. Það er mýksta þekkta steinefnið og þykir einkar nyt­sam­legt í fram­leiðslu á ým­iss kon­ar neyslu­vöru og iðnaðar­varn­ingi. Vand­inn er hins veg­ar sá að asbest finnst gjarn­an á svipuðum slóðum í jarðveg­in­um og agn­ir úr því geta borist í talkúmið. Það er því hætta á kross­meng­un, að sögn jarðfræðinga.

Talkúm er ekki bara notað í barna­púður, held­ur einnig fjöl­marg­ar snyrti­vör­ur, eins og varaliti, maskara, and­lit­s­púður, augnskugga og farða.

mbl.is