Tveir særðir eftir skotárás í Malmö

Frá vettvangi í Malmö í dag.
Frá vettvangi í Malmö í dag. Ljósmynd/Auður

Mikill viðbúnaður er við verslunarmiðstöðina Emporia í Malmö í Svíþjóð eftir að skotárás átti sér stað þar síðdegis. Staðfest hefur verið að tveir hafi verið fluttir á sjúkrahús.

Í frétt SVT segir að svæðið hafi verið girt af og að fjölmargir lögreglu- og slökkviliðsbílar séu fyrir utan verslunarmiðstöðina.

Fréttamiðilinn Sydsvenskan greinir frá því að tveir hafi særst í árásinni og að þungvopnaðir lögreglumenn hafi farið inn í verslunarmiðstöðina.

Íslendingar voru skammt frá þegar árásin átti sér stað en ekki er vitað til þess að nokkurn þeirra hafi sakað. 

Verslunarmiðstöðin hefur nú verið rýmd og fjöldi fólks stendur fyrir utan. Þá hafa lestarsamgöngur í grennd við Emporia verið stöðvaðar.

Julia Olsson, starfsmaður í verslun á þriðju hæð í Emporia, segir í samtali við SVT að hún hafi heyrt einhvern hávaða áður en maður kom hlaupandi inn í verslunina og sagði að skotárás hefði átt sér stað. Sjálf komst Julia út þegar tilkynnt var í kallkerfinu að rýma ætti verslunarmiðstöðina. Hún segir fólk nú bíða frekari fregna. Margir séu mjög skelkaðir.

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert