Munum berjast allt til endaloka

Selenskí á blaðamannafundi í gær.
Selenskí á blaðamannafundi í gær. AFP/Dimitar Dilkoff

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur varað við mögulegum árásum Rússa en í dag er þjóðhátíðardagur Úkraínu. Hálft ár er sömuleiðis liðið síðan Rússar réðust inn í landið.

Í sínu nýjasta ávarpi sagði Selenskí að Úkraína fagnaði „fánadegi okkar“ á sama tíma og landið „berst gegn hryllilegustu ógninni sem steðjar að ríkisvaldi okkar“.

Hann hvatti fólk til að fylgja öryggisreglum í borgum á borð við höfuðborginni Kænugarði og Karkív, meðal annars varðandi útgöngubann og loftvarnarflautur, að sögn BBC. 

AFP

„Dagurinn í dag er mikilvægur dagur fyrir okkur öll. Og þess vegna er þessi dagur, því miður, einnig mikilvægur fyrir óvin okkar,“ sagði forsetinn.

„Við verðum að vara okkur á því að skelfilegar ögranir Rússa og grimmilegar árásir eru mögulegar.“

Hann bætti við að úkraínski herinn og leyniþjónusta landsins muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda almenning. „Og við munum án vafa bregðast við rússneskri ógn af hvaða toga sem er.“

Ætla ekki að gefast upp

Hann hélt áfram: „Okkur er sama hvaða her þið hafið yfir að ráða, við höfum einungis áhyggjur af landinu okkar. Við munum berjast fyrir því allt til endaloka,“ bætti hann við.

„Við höfum verið sterk síðustu sex mánuði. Það er erfitt en við höfum staðið bökum saman og ætlum að berjast fyrir örlögum okkar.

„Hver einasti dagur er ástæða til að gefast ekki upp. Eftir svona langan tíma höfum við ekki rétt til þess að halda ekki áfram til loka,“ sagði forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert