Hlutir sem munu breytast á komandi mánuðum

Gott dæmi eru peningaseðlarnir, sem eru um 4,5 milljarðar talsins.
Gott dæmi eru peningaseðlarnir, sem eru um 4,5 milljarðar talsins. Samsett mynd

Þegar Georg VI. lést í svefni morguninn 6. febrúar 1952 varð dóttir hans Elísabet samstundis drottning Bretlands. Hið sama gerðist í gær, 8. september 2022, þegar Elísabet II. Bretadrottning lést eftir farsælan 70 ára feril – sonur hennar Karl III. Bretakonungur tók samstundis við krúnunni.

Má því búast við að, líkt og þegar Elísabet tók við fyrir 70 árum, sé umtalsvert af hlutum sem Bretar sjá og nota í sínu daglega lífi sem verður skipt út á komandi vikum, mánuðum, og jafnvel árum, sökum þess gríðarlega langa tíma sem hún þjónaði sem drottning.

Höfuð Karls mun snúa til vinstri

Peningaseðlar í umferð með andliti drottningarinnar heitinnar eru um 4,5 milljarðar talsins, sem nú þarf að innkalla. Þegar Elísabet tók við embætti var andlit þjóðhöfðingja ekki á seðlum, aðeins myntum. Það breyttist þó átta árum síðar þegar andlit Elísabetar tók að birtast á hinum og þessum eins punda seðlum.

Drottningin er á framhlið allra peningaseðla Bretlands og hin ýmsu …
Drottningin er á framhlið allra peningaseðla Bretlands og hin ýmsu bresku gáfumenni mannkynssögunnar á bakhliðinni. Skjáskot/Bank of England

Talið er að það að innkalla seðlana og gefa út nýja með andliti Karls muni taka um 16 mánuði. Hefð er þó fyrir því að það taki mun lengri tíma er kemur að myntum, á árum áður mátti finna marga gamla þjóðhöfðingja í pyngjum Breta. Skiptingin sé náttúrulegri þegar kemur að myntpeningum, þær séu sumsé ekki innkallaðar.

Verður því höfuð Karls á þeim myntpeningum sem seðlabanki Bretlands gefur út í hans valdatíð, og blandast þær við þær sem þegar eru í umferð. Hefð er fyrir því að þegar nýr þjóðhöfðingi tekur við, snúi höfuðið í aðra átt en fyrirrennari hans. Höfuð Elísabetar snýr til hægri svo búast má við að höfuð Karls muni horfa til vinstri.

Höfuð Elísabetar snýr til hægri, svo höfuð Karls mun snúa …
Höfuð Elísabetar snýr til hægri, svo höfuð Karls mun snúa til vinstri.

Hefðin um peningaseðla og myntir teygir sig víða, og má sem dæmi finna andlit drottningarinnar á kanadíska 20 dala seðlinum auk mynta víða um Samveldið (e. Commonwealth) á borð við Nýja-Sjáland. Kanadíski seðillinn verður líklegast ekki innkallaður og mun því sennilega vera í umferð þar í landi um árabil.

Nýir póstkassar og frímerki

Auk peningaseðlanna má finna skammstöfun hennar hátignar – EIIR – Elísabet II. Regina, á nær öllum póstkössum landsins.

Ólíklegt er þó að hinum konunglegu póstkössum verði skipt út í bráð. Enn er slatti af gömlum póstkössum á Bretlandi sem bera skammstöfun fyrri konunga. Þar má nefna föður hennar sem hafði skammstöfunina GVIR, og jafn vel frænda hennar, Játvarðs VIII, sem sagði sig frá krúnunni árið 1936.

Skammstöfun hennar hátignar EIIR á póstkassa í Bretlandi.
Skammstöfun hennar hátignar EIIR á póstkassa í Bretlandi. Phil Noble

Búast má þó við því að allir nýir póstkassar sem teknir verða í umferð í valdatíð Karls verði með nýrri skammstöfun: CIIIR, sem dæmi. Enn á eftir að staðfesta hver skammstöfun Karls verður en þar sem titill hans er á móðurmálinu Charles III. King, má búast við að hún verði CIIIR. 

Frímerkin munu þó líklegast vera innkölluð og þeim breytt. Til gamans má geta að þegar er í gangi innköllun á frímerkjum þar sem frískað var upp á frímerki drottningarinnar fyrr á árinu. Mun því pósturinn á Englandi nú sennilega ráðast í innköllun á glænýrri hönnun frímerkja.

Gamla og nýja frímerkið. Þau verða líklegast bæði innkölluð á …
Gamla og nýja frímerkið. Þau verða líklegast bæði innkölluð á næstu vikum. Royal Mail

Þjóðsöngurinn

Þjóðsöngurinn sem frá 1952 hefur hafist á orðunum „god save our gracious Queen“ mun breytast aftur í „god save our gracious King“ líkt og frá árinu 1901 fram til dauða Georgs VI. Lagið, sem samið er árið 1745, hljómaði aftur á móti upprunalega: „god save great George our king“.

Frá því snemma á 19. öld, þegar lagið varð þjóðsöngur Breta, hefur línan breyst eftir því hvort ríkjandi þjóðhöfðingi er drottning eða konungur.

Hér má heyra dæmi um þjóðsönginn sem nú mun taka við:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert