Með tæpar þrjár milljónir á mánuði

Sykkylven í Mæri og Raumsdal þar sem Waslah Mansha hefur …
Sykkylven í Mæri og Raumsdal þar sem Waslah Mansha hefur starfað sem læknir gegnum starfsmannaleigu upp á síðkastið vegna aðkallandi skorts á heimilislæknum í Noregi, það fyrirkomulag er ekki ókeypis fyrir sveitarfélögin. Ljósmynd/Wikipedia.org/Per Mork

Danskir læknar flykkjast nú til Noregs þar sem skortur á heimilislæknum er orðinn svo aðkallandi að 200.000 Norðmenn komast hreinlega ekki að hjá heimilislækni í sinni heimabyggð en mega þess í stað horfa upp á gríðarlanga biðlista hjá öllum tiltækum heimilislæknum.

Starfsmannaleigur í Noregi, þar á meðal leigan Nordlys Vikar, bjóða því dönskum læknum gull og græna skóga, þar á meðal 200.000 króna mánaðarlaun, sem svara til tæplega 2,8 milljóna íslenskra króna, og frítt húsnæði meðan á dvöl þeirra stendur.

„Mér finnst ég ekki einu sinni hafa verið í vinnu, mér finnst ég hafa verið í fríi,“ segir danski læknirinn Waslah Mansha við norska ríkisútvarpið NRK en hún dvaldi nýlega í bænum Sykkylven í Mæri og Raumsdal og sinnti þar læknisverkum.

„Náttúran í Noregi er svo falleg. Svo hafði ég kvöldin og helgarnar til að gera eitthvað skemmtilegt, hitta nýtt fólk og kynnast annarri menningu,“ segir læknirinn og kveðst hlakka mikið til að koma aftur. „Launin eru umtalsvert betri en í Danmörku.“

Waslah Mansha segir það á við frí að heimsækja fagra …
Waslah Mansha segir það á við frí að heimsækja fagra náttúru Noregs, eiga frí kvöld og helgar og fá að kynnast nýju fólki og nýrri menningu. Nýútskrifaðir læknar streyma nú til Noregs frá Danmörku og þiggja þar tvöföld laun á við norska starfsbræður sína og -systur. Ljósmynd/Úr einkasafni

Þurfum aðgerðir núna

„Þetta er hreint kollrak,“ segir Marian Hussein, þingmaður Sósíalíska vinstriflokksins, við NRK, „það er skelfilegt að við séum komin á þennan stað, sveitarfélögin sitja föst í vítahring með því að nýta sér starfsmannaleigur í stað þess að veðja á langtímalausnir. Nú segir ríkisstjórnin að öflugra aðgerða sé að vænta í fjárhagsáætlun næsta árs og þetta mál sýnir svart á hvítu hve mikilvægt það er,“ segir Hussein.

Bård Hoksrud, þingmaður Framfaraflokksins, tekur í sama streng. „Þetta er merki um að heimilislæknakerfið virkar ekki. Þegar nýútskrifaðir danskir afleysingalæknar geta þénað tvöfalt á við norska lækna og þegið í kaupbæti ókeypis húsnæði sýnir það okkur bara þá vonarvöl sem norsk sveitarfélög eru komin á. Við þurfum aðgerðir og við þurfum þær núna,“ segir Hoksrud.

„Við höfum verið mjög opin. Í starfsmannaleigugeiranum hefur verið nánast bannað að tala opinskátt um laun og þar gerðum við breytingu á,“ segir Helen Latif sem opnaði Nordlys Vikar fyrr á árinu og hefur nú samið við fjölda sveitarfélaga í Noregi um að útvega þeim lækna.

Langt frá því að vera sjálfbært

Anne-Karin Rime, formaður Læknafélags Noregs, er ekki yfir sig ánægð með þróunina. „Mörg sveitarfélög neyðast til að nota innleigða lækna til að tryggja íbúum sínum aðgang að lækni. Þetta er bein afleiðing neyðarástandsins í heimilislæknakerfinu. Það kerfi byggir á að við sem sjúklingar förum til sama læknis í langan tíma. Notkun afleysingalækna verður hins vegar til þess að sjúklingar fara til margra lækna sem veldur óstöðugleika og truflar langtímaferli. Auk þess er þetta rándýrt fyrir sveitarfélögin og langt frá því að vera sjálfbært,“ segir formaðurinn.

Enn virðast þó engar lausnir í sjónmáli hjá norskum heimilislæknum þegar 200.000 Norðmenn vantar lækni og á meðan neyðast sveitarfélögin til að leigja danska lækna af starfsmannaleigum – nokkuð sem er langt frá því að vera ókeypis.

NRK

NRKII (gafst upp og hætti sem heimilislæknir)

NRKIII (vilja bjóða heimilislæknum ofurbónusa)

Dagens Medisin (meira en neyðarástand)

mbl.is