Vilja setja verðþak á eldsneyti

Evrópa sér fram á orkukrísu vegna skorts á eldsneyti.
Evrópa sér fram á orkukrísu vegna skorts á eldsneyti. AFP/Nikolay Doychinov

Evrópusambandið tilkynnti í gær á Twitter að önnur umræða myndi fara fram með orkumálaráðherrum sambandsins um orkukrísu álfunnar vegna stríðsins í Úkraínu 30. september næstkomandi.

Tékkneski iðnaðar- og viðskiptaráðherrann, Jozef Sikela, sem er í forsvari orkumála sambandsins, segir að á fundinum megi búast við „áður óþekktum aðgerðum“ til að kljást við orkukrísuna. Talað hefur verið um að setja þak á orkuverð, en það gæti vakið mikla reiði Rússa, ekki síst í kjölfar allra refsiaðgerða Vesturlanda frá innrás þeirra í Úkraínu.

Áhrif stríðsins hafa verið gríðarleg á orkuverð í Evrópu, en orkuverð tengist mjög náið rafmagnsverði í álfunni. Við upphaf veturs er skiljanlega uggur í mönnum, en Kreml hefur hótað að stöðva alla sölu eldsneytis til álfunnar ef verðþak verður sett á.

Norðmenn eru sama sinnis. Þeir eru nú helsti söluaðili eldsneytis til álfunnar, en eru ekki í Evrópusambandinu. Þeir hafa notið hækkandi orkuverðs en hafa hingað til ekki viljað skipta sér af verðsamningum orkufyrirtækja. „Við erum opin fyrir umræðum en höfum efasemdir um gagnsemi þess að setja verðþak á eldsneyti,“ sagði forsætisráðherrann Jonas Gahr Störe í yfirlýsingu eftir símtal við forseta Evrópusambandsins Ursulu von der Leyen. „Verðþak breytir ekki þeirri staðreynd að það er eldsneytisskortur í Evrópu.“

Sanna Marin forsætisráðherra Finna ásakaði Rússa í gær um að notfæra sér eldsneytisskort álfunnar sem vopn til þess að reyna að eyðileggja samstöðu Evrópu með Úkraínu. Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, „má ekki ná árangri með þessum hótunum“, sagði hún og hvatti Evrópusambandið til að „sýna samstöðu, ákveðni og kjark“ til þess að komast í gegnum veturinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert