Látin fjarlægja tíðatappa fyrir framan verðina

Leitað var 500 sinnum á fanga nöktum í fangelsinu í …
Leitað var 500 sinnum á fanga nöktum í fangelsinu í Bergen. Þrír fangar þaðan hafa nú stefnt norska ríkinu fyrir mannréttindabrot. Ljósmynd/Donar.no

Kona og tveir karlmenn, fangar í Bergen í Noregi, hafa höfðað mál gegn norska ríkinu vegna mörg hundruð líkamsleita á þeim nöktum í klefum þeirra í fangelsinu í Bergen er þau telja brot gegn mannréttindum þeirra.

Annar karlmaðurinn sætti 500 slíkum leitum á nokkurra ára tímabili án þess að á, í eða hjá honum fyndist nokkuð saknæmt og telur hann ítrekaðar leitir auk þess að þurfa að standa nakinn fyrir framan óteljandi fangaverði og hósta eða framkvæma aðrar athafnir að skipun varðanna niðurlægjandi og auk þess mannréttindabrot.

Þá greinir konan frá því að hún hafi meðal annars sætt líkamsleit er hún hafði á klæðum og þá þurft að fjarlægja tíðatappa úr leggöngum sínum fyrir framan verðina.

Niðurlægjandi stellingar á hæpnum grundvelli

Aðalmeðferð málsins hófst í morgun við Héraðsdóm Óslóar og telur lögmaður þremenninganna, Maria Hessen Jacobsen, háttsemi fangavarðanna brot gegn mannréttindasáttmála Evrópu. „Fólk þarf að afhjúpa nekt sína og standa í niðurlægjandi stellingum á mjög hæpnum grundvelli,“ segir Jacobsen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Með líkamsleitinni er ætlun stjórnenda fangelsisins að ganga úr skugga um að fangar hafi ekki í sér eða á fíkniefni sem smyglað hafi verið inn í fangelsið með gestum þeirra eða bréf sem ætlunin sé að smygla út úr fangelsinu.

Maria Hessen Jacobsen, lögmaður sóknaraðila, telur forsendur líkamsleitarinnar í fangelsinu …
Maria Hessen Jacobsen, lögmaður sóknaraðila, telur forsendur líkamsleitarinnar í fangelsinu í Bergen hæpnar. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Háttsemin er varin með því að kalla hana fyrirbyggjandi og hugsunin þar á bak við að sé sífellt leitað á öllum komi það í veg fyrir að eitthvað komist inn í fangelsið,“ segir lögmaðurinn enn fremur en hún hefur alls 150 skjólstæðinga á sinni könnu sem sætt hafa síendurtekinni leit.

„Þeir fara ekki í mál þar sem þeir eiga ekki möguleika á að standa í tíu daga réttarhöldum. Sumir þeirra eiga sér sögu um kynferðislega misnotkun og tengd áföll sem gerir þeim líkamsleitina sérstaklega þungbæra.“

Bendir Jacobsen sérstaklega á að fangelsið í Bergen sé langt í frá það eina sem borist hafa sögur frá um líkamsleit á nöktum föngum. Ætlunin með réttarhöldunum nú sé ekki að gera fangelsið í Bergen uppvíst að brotum á norskri löggjöf heldur að fá því slegið föstu hvort norskar reglur um líkamsleit í norskum fangelsum gangi í berhögg við mannréttindasáttmálann.

Norska dómsmálaráðuneytið vill ekki tjá sig um málið við NRK. „Ráðuneytið tjáir sig ekki um mál sem eru í rekstri og ríkið á aðild að,“ skrifar Anders Bortne, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, í tölvupósti til ríkisútvarpsins og bendir á að norsk stjórnvöld hafi gripið til aðgerða til að styðja við refsivörslukerfið enda sé þeim umhugað um að gildandi reglur á hverjum tíma tryggi öryggi hvorra tveggja, fanga og fangavarða landsins.

NRK

ABC Nyheter

VG (leitað 60 sinnum á unglingi sem fyrirfór sér)

mbl.is