Rússar geta ekki ferðast til Finnlands

Pekka Haavisto utanríkisráðherra og Krista Mikkonen innanríkisráðherra.
Pekka Haavisto utanríkisráðherra og Krista Mikkonen innanríkisráðherra. AFP

Rússum með Schengen-vegabréfaáritanir verður meinað að koma til Finnlands frá og með miðnætti að staðartíma. 

Þetta sagði finnski utanríkisráðherrann Pekka Haavisto á blaðamannafundi í dag.

Rússum hefur fjölgað mjög í Finnlandi í kjölfar herkvaðningar í Rússlandi.

„Ólöglegar þjóðaratkvæðagreiðslur í Úkraínu“ og meint skemmdarverk á Nord Stream-leiðslum í Eystrasalti „hafa aukið á áhyggjur“, sagði Haavisto.

Rússar geta þó enn farið til Finnlands til að heimsækja fjölskyldur sínar, til að vinna eða til að fara í nám. „Ákvörðunin má heldur ekki koma í veg fyrir ferðalög af mannúðarástæðum,“ bætti Haavisto við.

Herkvaðning ekki grundvöllur hælis

Krista Mikkonen innanríkisráðherra sagði mögulegt að takmarkanirnar leiði til aukins fjölda hælisumsókna og ólöglegra landamæraferða.

Hún benti þó á að það verður ekki hægt að sækja um hæli í landinu á grundvelli þess að hafa verði kvaddur í herinn nema ef hægt er að sýna fram á að sá herkvaddi gæti neyðst til að fremja stríðsglæpi eða ef hann þyrfti að sæta óhóflegri refsingu.

Gripið er til takmarkananna þrátt fyrir að Finnar hafi takmarkað fjölda vegabréfsáritana sem voru gefnar út áður en tilkynnt var um herkvaðninguna en það hafði verið gert í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu. 

Haavisto benti á að takmarkanirnar sem eru til staðar séu ekki „fullnægjandi“ við núverandi aðstæður.

mbl.is