Grín er dauðans alvara

Hæstiréttur Bandaríkjanna á verðugt verkefni fyrir höndum.
Hæstiréttur Bandaríkjanna á verðugt verkefni fyrir höndum. AFP

Forsvarsmenn grínvefsíðunnar The Onion, sem birtir „fréttir“ í formi beittrar háðsádeilu, hefur skrifað Hæstarétti Bandaríkjanna bréf til stuðnings manni sem hafði verið handtekinn og ákærður fyrir að gera gys að lögreglunni á samfélagsmiðlum. 

Í bréfinu, sem er skrifað í spaugstofustíl Onion, er hanskinn tekinn upp fyrir mikilvægi háðsádeilu í samfélagi manna. Það er þó sagt, í léttum dúr, að um 350.000 manns starfi fyrir fréttavefinn og að 4,3 milljarðar lesi The Onion sem sé í dag „langöflugasta og áhrifamesta stofnun í sögu mannskyns,“ eins og útleggja mætti á íslensku.

Maðurinn hafði búið til Facebook-síðu til að gera grín að …
Maðurinn hafði búið til Facebook-síðu til að gera grín að lögreglunni í Parma í Ohio. AFP

Málið sjálft, sem er nú hjá Hæstarétti Bandaríkjanna, er þó ekkert spaug. Það varðar mann að nafni Anthony Novak sem var handtekinn eftir að hafa gert grín að lögreglunni í Parma í Ohio-ríki á Facebook. 

Um er að ræða nokkrar færslur sem voru birtar á 12 klukkustunda tímabili á Facebook-síðu sem var látin líta svipað út eins og síða lögreglunnar. Í einni þeirra sagði frá því hvernig lögreglan hefði hvatt minnihlutahópa um að sækja alls ekki um störf hjá lögreglunni. Einnig var búinn til gerviviðburður þar sem barnaníðingar gætu fengið tækifæri til að losna af skrá sem dæmdir kynferðisbrotamenn og hljóta að auki heiðursnafnbót hjá lögreglunni. 

Lögreglan hafði ekki þolimæði fyrir Facebook-flippi mannsins.
Lögreglan hafði ekki þolimæði fyrir Facebook-flippi mannsins. AFP

Mál Novak fyrir neðri dómstigum endaði með því að hann var sýknaður. Hann fór hins vegar í mál við lögregluna á þeim grundvelli að hún hefði brotið gegn gegn réttindum hans sem nytu verndar í stjórnarskrá Bandaríkjanna. Áfrýjunardómstóll komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að lögreglan nyti undanþágu frá saksókn og vísaði málinu frá. 

Meðal annars var deilt um það hvort fólk hafi í raun trúað því sem það las á Facebook-síðunni sem Novak stóð á bak við.

Talsmenn Onion halda því hins vegar fram að Novak hafi alls ekki þurft að taka það sérstaklega fram að þarna væri um grínsíðu að ræða. „Í einföldu máli, eigi háðsádeila að ganga upp, þá verður hún að herma eftir raunveruleikanum á trúverðugan máta,“ segir í bréfi Onion til hæstaréttar. 

Fyrir áratug birti The Onion „frétt“ sem sagði frá því …
Fyrir áratug birti The Onion „frétt“ sem sagði frá því að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, væri kynþokkafyllsti karlmaður í heimi. Sumir töldu að um sanna sögðu væri að ræða. Dæmi hver fyrir sig. AFP

Það hefur gerst í ófá skipti af lesendur hafi endurbirt greinar úr The Onion og talið að um sannleika væri að ræða, m.a. grein frá árinu 2012 sem sagði frá því að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, væri kynþokkafyllsti karlmaður heims.

Laukrétt, eða laukfrétt, myndi einhver, einhversstaðar kannski segja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert