Íranskar skólastúlkur mótmæla enn

Mótmæli geisa nú yfir Íran í kjölfar þess að Masha …
Mótmæli geisa nú yfir Íran í kjölfar þess að Masha Amini lét lífið í haldi lögreglu vegna brot hennar á ströngum reglum Írana um notkun á höfuðslæðu. AFP

Skólastúlkur í Íran veifuðu höfuðslæðum sínum í dag í mótmælaskyni gegn klerkastjórninni. 

Hörð mótmæli hafa geisað þar vegna morðs lögreglu á Mahsa Amini eftir brot hennar á ströngum reglum Írana um notkun höfuðslæðu. BBC greinir frá.

Í einu myndbandi frá mótmælunum í írönsku borginni Karaj í Alborz-héraði í dag sést hvernig hópur skólastúlkna rekur starfsmann skólans út úr skólanum. Stúlkurnar köstuðu í hann tómum vatnsflöskum og kölluðu: „Skammastu þín!“

Annað myndband sýnir hóp skólastúlkna koma í vegi fyrir umferð í borginni Shiraz. Í myndbandinu veifa þær slæðum sínum á lofti og hrópa illyrðum yfir einræðisherrann og leiðtoga Írana, Ali Khamenei.

Mótmæli skólastúlkna áttu sér stað t.a.m. í Karaj, Tehran, Saqez og Sanandaj.

Samtökin Írönsk mannréttindi (e. Iran Human Rights) í Noregi greindu frá því í dag að um 154 manns hafi látið lífið í mótmælunum.

mbl.is