Sannfærður um þátttöku Mordaunt

Penny Mordaunt í sjónvarpsviðtali hjá BBC í gær.
Penny Mordaunt í sjónvarpsviðtali hjá BBC í gær. AFP

Robbie Moore, þingmaður Íhaldsflokksins sem styður Penny Mordaunt, fyrrverandi viðskipta- og varnarmálaráðherra Bretlands, sem næsta forsætisráðherra landsins, segist vera „algjörlega sannfærður“ um að hún fái nógu marga stuðningsmenn til að geta keppt við Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra landsins. 

Mordaunt hefur aðeins tryggt sér stuðning 25 þingmanna en hún þarf að ná 100 þingmönnum fyrir klukkan 13 í dag að íslenskum tíma.

Á hinn bóginn hefur verið tilkynnt að 155 þingmenn hafi sýnt Sunak stuðning og er hann talinn líklegur til að verða næsti forsætisráðherra Bretlands.

Moore segist í samtali við BBC engu að síður vera sannfærður um að Mordaunt verði á kjörseðlinum þegar kosið verður um næsta leiðtoga Íhaldsflokksins í stað Liz Truss sem sagði af sér embætti í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert