Kínverjar fá ekki að vera lengur með

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretands, hefur verið afdráttarlaus í svörum þegar …
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretands, hefur verið afdráttarlaus í svörum þegar það kemur að samskiptum Breta og Kínverja. AFP

Bresk stjórnvöld greindu frá því í dag að kínverska kjarnorkufyrirtækið CGN muni ekki taka þátt í að reisa Sizewell C kjarnorkuverið við Suffolk á Englandi. Bretar munu halda verkefninu áfram í samstarfi við franska fyrirtækið EDF. 

Í gær sagði Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, að hið „gullna tímabil“ í samskiptum Bretlands og Kína væri liðið. Sunak sagði enn fremur að stjórnvöld í Kína reyni á hagsmuni og gildi Breta. 

CGN átti 20% hlut í verkefninu en sá hlutur er nú fyrir bí í kjölfar ákvörðunar breska ríkisins. Það hyggst setja 700 milljónir punda, sem jafngildir um 118 milljörðum kr., í framkvæmdina. EDF leggur til sömu upphæð. Bretar og Frakkar munu því skipta eignarhaldinu jafnt sín á milli. 

Sizewell C-kjarnorkuverið, sem verið er að reisa á austurströnd Englands, á að sjá um sex milljón heimilum fyrir raforku. Stefnt er að því að það verði tekið í notkun árið 2035. 

mbl.is