„Þegar ég dansa er ég ekki lengur fangi“

Í fangelsinu Linho í úthverfi í vesturhluta Lissabon, höfuðborgar Portúgals, stundar hópur fanga nútímadans. 

Tvisvar í viku er kapellu fangelsins breytt í dansstúdíó þar sem listakonan og danskennarinn Catarina Câmara kennir dans, en hún er einnig menntuð í sálfræði. Dansnámskeiðinu er ætlað að undirbúa fangana fyrir þátttöku í þjóðfélaginu, gefa þeim nýja sýn á tilveruna og gefa þeim rými til að gleyma vandamálum sínum um stund.

„Þegar ég dansa er ég ekki lengur fangi,“ segir Manuel Antune einn fanganna. „Mér líður eins og ég sé úti á götu og sé frjáls.“

Þolinmóðari og sýna öðrum meiri virðingu

Margir fanganna sem taka þátt í dansnámskeiðinu hafa brotið reglur fangelsins allt að 20 sinnum á ári, segir Carlos Moreira, fangelsisstjóri. „Núna er allt annað uppi á teningnum og varla nokkrar reglur brotnar," segir hann.

Starfsmenn í fangelsinu segjast sjá mikinn mun á föngunum eftir að þeir byrjuðu á dansnámskeiðinu. Þeir séu mun þolinmóðari og sýni samföngum sínum meiri virðingu.

Neikvæðar tilfinningar skaða mig og aðra

„Með dansinum lærum við að meta lífið betur og á sama tíma metum við aðrar manneskjur betur,“ segir Fabio Tavares, einn fanganna á námskeiðinu. Hann segir dansinn hjálpa sér við að losa sig við neikvæðar tilfinningar og hjálpa honum að virða aðra. „Neikvæðar tilfinningar sem skaða mig og aðra í umhverfi mínu. Við lærum mjög mikið á námskeiðinu, trúðu mér!“

Fangarnir eru núna að undirbúa danssýningu sem verður sýnd í fangelsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert