Mikill eldur braust út í verslunarmiðstöð

Mikill eldur braust út í nótt.
Mikill eldur braust út í nótt. AFP/Russian emergency situations ministry

Einn lést þegar mikill eldur braust út í Mega Khimki verslunarmiðstöðinni í úthverfi Moskvu, höfuðborg Rússlands, í nótt.

Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti almannavarna í Rússlandi var eldurinn búinn að breiða mikið úr sér og náði hann yfir svæði á stærð við fótboltavöll eða um sjö þúsund fermetra. 

Á áttunda tug slökkviliðsmanna og 20 dælubílar eru á vettvangi en erfiðlega hefur gengið að ná tökum á eldsvoðanum sökum hönnunar byggingarinnar.

Talið er að eldurinn hafi verið fljótari að breiða úr sér eftir að þakið á verslunarmiðstöðinni féll.

Í fyrstu greindu rússneskir miðlar frá því að grunur léki á um íkveikju. Viðbragðsaðilar telja nú þó líklegra að öryggisreglum hafi ekki verið fylgt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert