Tvær kínverskar „lögreglustöðvar“ afhjúpaðar í Þýskalandi

Þessi mynd frá 16. október sl. sýnir fólk stilla sér …
Þessi mynd frá 16. október sl. sýnir fólk stilla sér upp við styttu af hamar og sigð, þekktu kommúnísku tákni. Nú hafa vesturlönd áhyggjur af leynilegum lögreglustöðvum Kínverja um allan heim sem þeir nota til að áreita gagnrýnendur kínverska kommúnistaflokksins. AFP/Jade Gao

Kína hefur komið upp að minnsta kosti tveimur „lögreglustöðvum“ í Þýskalandi. Þetta hafa þýsk yfirvöld staðfest.

Þau lýsa auknum áhyggjum af miðstöðvum á borð við þessar, utan Kína, sem gagnrýnendur segja að notaðar séu til að áreita andófsmenn og gagnrýnendur kínverska kommúnistaflokksins.

Þýsku miðstöðvarnar hafa ekki fastar skrifstofur og eru í umsjón kínverskra einkaaðila, samkvæmt upplýsingum frá þýska innanríkisráðuneytinu.

„Kínversk yfirvöld hafa ekkert framkvæmdavald á þýsku yfirráðasvæði,“ sagði talsmaður ráðuneytisins í gær, í svari við fyrirspurn lögmanns.

„Þýsk stjórnvöld eru í sambandi við kínverska sendiráðið vegna þessa máls.“

Segir stjórnvöld hafa sætt sig við ástandið

Fyrr á þessu ári sögðu spænsk samtök að Kína hefði komið upp 54 lögreglustöðvum um allan heim, sem stundum væru notaðar til að áreita gagnrýnendur kínverska kommúnistaflokksins.

Þýski lögfræðingurinn Joana Cotar, sem varð völd að því að upplýsingarnar voru birtar með fyrirspurn sinni um málið, sagði að um „útúrsnúning“ væri að ræða og að stjórnvöld hefðu aðeins opinberað einstök atriði þegar þau voru spurð og að þau „einfaldlega sætti sig við“ tilvist stöðvanna.

„Ef þau myndu starfa eftir lögunum þá myndu þessar miðstöðvar, hvernig sem þær líta út verða leystar upp strax,“ sagði Cotar, sem var þar til nýlega þingmaður hægriöfgaflokksins AfD.

Þekktir kínverskir andófsmenn hafa fengið hæli í Þýskalandi, þar á meðal rithöfundurinn Liao Yiwu sem var fangelsaður í Kína fyrir gagnrýn ritverk sín og Liu Xia, eiginkona friðarverðlaunahafa Nóbels, Liu Xiaobo.

Áhyggjur af þessu framferði vaxið um heim allan

Í gær sagði utanríkisráðherra Tékklands að Kína hefði lokað tveimur slíkum miðstöðvum í Prag.

Hollensk yfirvöld sögðust í október vera að rannsaka skýrslur um að minnsta kosti tvær miðstöðvar í Hollandi sem kínversk yfirvöld nota til að áreita andófsmenn.

Fyrr í þessum mánuði var sendiherra Peking í Ottawa í Kanada kallaður til viðtals vegna fregna af því að Kína hefði sett upp slíkar stöðvar á Toronto-svæðinu.

Kína hefur áður neitað því að stunda lögregluaðgerðir á erlendri grundu og sagt að „þjónustustöðvar“ sínar erlendis séu til þess fallnar að hjálpa kínverskum borgurum við verkefni á borð við að endurnýja ökuskírteini.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert