Þrjár konur skotnar til bana á kaffihúsi

Ítalskir lögreglumenn að störfum.
Ítalskir lögreglumenn að störfum. AFP

Karlmaður skaut þrjár konur til bana og særði fjórar manneskjur til viðbótar í ítölsku borginni Róm í gær.

Lögreglan segir að árásin hafi hugsanlega tengst húsnæðisdeilum.

Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, greindi frá því á Facebook að eitt fórnarlambanna hafi verið vinkona hennar.

Grunaði byssumaðurinn, hinn 57 ára Claudio Campi, er sagður hafa hafið skothríð á íbúafundi sem var haldinn á kaffihúsi í norðurhluta Rómar og notað til þess skammbyssu af tegundinni Glock sem hann hafði stolið.

Í bloggfærslu í nóvember skrifaði hann um deilur við umsjónarmenn fjölbýlishússins þar sem hann bjó, sem hann sakaði um að hafa reynt að bola honum þaðan út.

Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu.
Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu. AFP/Ludovic Marin

Ein kvennanna þriggja sem var skotin til bana hét Nicoletta Golisano, fimmtug móðir tíu ára drengs. Meloni sagði í facebookfærslu sinni að þær hafi verið vinkonur og minntist hún hennar með hlýjum hug.

Hún sagði að byssumaðurinn hafi verið handtekinn og vonaðist til að réttlætinu yrði fullnægt.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert