Fyrsta meirihlutastjórn í 30 ár

Mette Frederiksen, starfandi forsætisráðherra Danmerkur, boðar nýja ríkisstjórn en sú …
Mette Frederiksen, starfandi forsætisráðherra Danmerkur, boðar nýja ríkisstjórn en sú stjórn verður fyrsta meirihlutastjórn Danmerkur í þrjá tugi ára. AFP/Jonathan Nackstrand

Ný ríkisstjórn Jafnaðarmannaflokksins, Venstre og Moderaterne í Danmörku mun kynna stefnumál sín á blaðamannafundi í dag. Þessu greinir starfandi forsætisráðherra landsins, Mette Frederiksen, sjónvarpsstöðinni TV2 og fleiri fjölmiðlum frá en Frederiksen gekk á fund Margrétar Danadrottningar í gær og kvaðst þar vera reiðubúin til að mynda nýja stjórn.

„Þessi ríkisstjórn mun einkennast af jafnvægi. Þetta verður pólitískt hæf ríkisstjórn og við höfum sett markið hátt,“ segir Frederiksen og kveðst hlakka til að greina nánar frá nýju stjórninni á blaðamannafundinum í dag með formönnum flokkanna þriggja. Skipan ráðuneyta verður svo kynnt á öðrum blaðamannafundi á morgun.

Sinna loftslagsmálum af einurð

Frederiksen segist ekki reikna með að myndun nýju stjórnarinnar gangi átakalaust fyrir sig. „Ljóst er að svo ólíkir flokkar frá svo mismunandi stöðum verða ekki sammála um allt. Við göngum til þessa samstarfs vegna þess að við vitum að það er það besta fyrir landið okkar,“ segir hún.

Nefnir ráðherrann að meðal stefnumála, sem þegar liggi fyrir, sé að koma fleiri þegnum landsins út á vinnumarkaðinn og sinna loftslagsmálum af einurð. „Mér hefur sýnst það lengi að þetta sé það sem landið þarfnist vegna þess neyðarástands sem við nú upplifum – verðbólgu og stríðs í Evrópu – en einnig vegna þess að við þurfum að komast að niðurstöðu og hún krefst þess að við lítum á hlutina í öðru ljósi,“ segir Frederiksen af nýju ríkisstjórnarsamstarfi en stjórnin sem nú myndast verður fyrsta meirihlutastjórn Danmerkur í þrjá áratugi, frá 1993, það er að segja stjórn sem hefur öruggan þingmeirihluta á bak við sig.

TV2

DR

Altinget.dk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert