Hætta að taka við flóttafólki í viðkvæmri stöðu

Um 70 þúsund flóttamenn frá Úkraínu hafa komið til Sviss …
Um 70 þúsund flóttamenn frá Úkraínu hafa komið til Sviss á þessu ári. AFP/Dimitar Dilkoff

Yfirvöld í Sviss eru tímabundið hætt þátttöku í áætlun Sameinuðu þjóðanna sem miðast að því að finna heimili fyrir flóttafólk sem er í sérstaklega viðkvæmri stöðu. 

Flóttamannastofnun Sviss (SEM) greinir frá því að fjölgun flóttamanna frá Úkraínu hafi leitt til þessarar ákvörðunar. 

„Ekki er efast um gagnsemi áætlunarinnar, einungis verður hætt að taka inn fólk tímabundið,“ sagði Lukas Rieder, talsmaður SEM, í skriflegu svari til AFP-fréttaveitunnar. 

Sviss hafði skuldbundið sig til að taka á móti 1.820 flóttamönnum í viðkvæmri stöðu í ár og á næsta ári. 

100 þúsund á þessu ári

Rieder sagði að ákvörðunin hefði verið tekin vegna gríðarlegs álags á flóttamannakerfi Sviss. Ákvörðunin verður endurskoðuð í byrjun næsta árs.

Flestir sem uppfylla skilyrði áætlunarinnar eru einstaklingar frá Afganistan, Súdan og Sýrlandi, aðallega börn, konur og fólk sem stríðir við heilsubrest. 

Um 100 þúsund flóttamenn hafa komið til Sviss á þessu ári, þar af eru 70 þúsund sem hafa flúið stríðið í Úkraínu. Um er að ræða mesta fjölda flóttamanna í ríkinu frá síðari heimstyrjöldinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert