Andrés útlægur úr höllinni

Andrés prins, nær, við útför drottningar í september.
Andrés prins, nær, við útför drottningar í september. AFP/Hannah McKay

Karl Bretakonungur hefur gert Andrés prins, hertogann af York, útlægan úr Buckingham-höll í kjölfar þess er tengsl hans við bandaríska kynferðisafbrotamanninn og auðkýfinginn Jeffery Epstein heitinn komust í hámæli hér um árið.

Andrés á þess þar með ekki lengur kost að hafa skrifstofu í höllinni eða nota heimilisfang hennar í samskiptatilgangi. Þetta hafa breskir fjölmiðlar eftir heimildarmanni eða -mönnum sem þeir láta ekkert uppi um.

Hann er á eigin vegum

„Allri nærveru hans í höllinni er formlega lokið,“ hefur dagblaðið Daily Mail eftir véfrétt sinni, „konungurinn hefur sagt þetta alveg skýrt. Hann [Andrés] heyrir ekki undir krúnuna, hann er á eigin vegum.“

Einn fylgifiskur ákvörðunar konungs er að það starfsfólk sem innt hefur störf sín af hendi í þágu hertogans missir stöður sínar. Annar fylgifiskur er að Katrín, prinsessan af Wales og hertogaynja af Cornwall, mun taka við hlutverkum Andrésar sem yfirmaður írsku lífvarðanna, lífvarðasveita konungsins, en Vilhjálmur prins verður offursti velsku varðanna, fótgönguliðadeildar í breska hernum.

Það var Elísabet drottning heitin sem leysti Andrés prins undan konunglegum skyldum þegar tengsl þeirra Epstein komust í hámæli í kjölfar viðtals Andrésar við Newsnight á BBC árið 2019.

Daily Mail

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert