Síðasti konungur Grikklands látinn

Þessi mynd var tekin í febrúar 2018 og sýnir Konstantín …
Þessi mynd var tekin í febrúar 2018 og sýnir Konstantín II með eiginkonu sinni Anne-Marie fyrrverandi drottningu Grikklands og systur Margrétar Danadrottningar. Myndin er tekin við útför Hinriks prins í Danmörku. AFP/Jens Dresling

Síðasti konungur Grikklands, Konstantínus II, sem ríkti áður en landið varð lýðveldi árið 1974, lést í Aþenu í dag, 82 ára að aldri, að því er fram kemur í tilkynningu frá gríska ríkisútvarpinu ERT.

Konstantínus var lagður inn á sjúkrahús í Aþenu í síðustu viku með öndunarerfiðleika og grískir fjölmiðlar sögðu að banamein hans hefði verið heilablóðfall.

Konstantínus II tók við krúnunni árið 1964 aðeins 23 ára gamall á einu mesta ólguskeiði landsins í manna minnum. Landið var enn í sárum aðeins fimmtán árum eftir borgarastyrjöldina í Grikklandi og kalda stríðið stóð sem hæst. Aðeins þremur árum eftir valdatöku hans var honum steypt af stóli þegar grimmileg herforingjastjórn náði völdum í landinu árið 1967 og réð ríkjum næstu sjö árin.

Brúðkaupsdagur Anne-Marie og Konstantín 18. september 1964 í Aþenu í …
Brúðkaupsdagur Anne-Marie og Konstantín 18. september 1964 í Aþenu í Grikklandi. AFP/Steen Jacobsen

Konungveldið afnumið

Átta mánuðum eftir valdaránið reyndi Konstantínus II að ná völdum aftur, en það mistókst og hann lýsti því í ævisögu sinni frá 2015 sem „versta degi ævi sinnar.“ Hann flúði til Rómaborgar ásamt konungsfjölskyldunni og þau fluttust síðan til Lundúna árið 1974.

Þegar lýðræði var endurreist í Grikklandi árið 1974 kusu tæplega 70% Grikkja með því að afnema konungsveldið í þjóðaratkvæðagreiðslu og lauk þar með rúmlega aldarlangri valdasetu ættar Konstantínusar II sem rekja má til dansks langafa hans, Georgs I og ársins 1863.

Eftir afnám konungsveldisins fylgi löng lagaleg barátta við gríska ríkið þar sem Konstantínus reyndi að fá einhverjar bætur fyrir konungseignir og jarðir. Árið 1991 fékk hann leyfi til að fjarlægja 10 gáma af munum frá fyrrverandi konungsbústaðnum Tatoi í grennd við Aþenu. Margir þessara muna voru síðar seldir af uppboðshúsinu Christie’s í London. Málinu lauk með bótagreiðslum árið 2002 þegar Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi gríska ríkið til að greiða fyrrverandi konungsfjölskyldunni næstum 14 milljónir evra í bætur.

Konstantín II og Anne-Marie frá Danmörku á grísku eyjunni Korfú.
Konstantín II og Anne-Marie frá Danmörku á grísku eyjunni Korfú. AFP/Erik Petersen

Fjölskyldan flúði undan nasistum

Konstantínus var innan við ársgamall þegar fjölskylda hans flúði til Egyptalands til að komast undan innrásarher nasista sem hafði hersetið Grikkland til 1944. Hann var sex ára þegar þau sneru heim í eyðilegt land.

Þegar hann var krónprins vann hann til gullverðlauna með þriggja manna áhöfn í siglingum á Ólympíuleikunum í Róm 1960 og voru það fyrstu Ólympíuverðlaun Grikklands í nærri fimm áratugi. Hann var heiðursfélagi í Alþjóðaólympíunefndinni frá 1974.

Frændi Karls III Bretakonungs

Árið 2013 flutti hann aftur til Grikklands eftir að hafa búið í Lundúnum í fjóra áratugi. Síðustu árin átti hann við heilsuleysi að stríða.

Hann var frændi Karls III Bretakonungs, guðfaðir Vilhjálms prins og bróðir Sofiu, móður Felipes VI Spánarkonungs.

Konstantínus var giftur Anne-Marie, systur Margrétar II, drottningar Danmerkur, og eignuðust þau fimm börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert