Handtökur, vopn og fíkniefni

Sundsvall í Svíþjóð er bær tæplega 400 kílómetra norður af …
Sundsvall í Svíþjóð er bær tæplega 400 kílómetra norður af Stokkhólmi og deila tveir hópar þar hart um yfirráð á fíkniefnamarkaði og hafa deilurnar haft afleiðingar í Stokkhólmi undanfarið. Ljósmynd/Wikipedia.org

Sjö manns voru handteknir auk þess sem hald var lagt á vopn og fíkniefni í lögregluaðgerð í Sundsvall í Svíþjóð í gærkvöldi. Greinir sænska ríkisútvarpið SVT frá því að samkvæmt heimildum úr röðum lögreglunnar hafi aðgerðin haft bein tengsl við þá bylgju ofbeldis sem gengið hefur yfir höfuðborgina Stokkhólm síðustu vikur.

Væringar þessar eru sagðar snúast um tögl og hagldir fíkniefnamarkaðar Sundsvall sem er tæpa 400 kílómetra norður af Stokkhólmi en þar hafa tveir menn, „kúrdíski refurinn“ og annar, og hópar kringum þá barist um yfirráðin og eftir því sem sænskir fjölmiðlar greindu frá nýlega hafa átökin orðið kveikjan að skot- og sprengjuárásum í Stokkhólmi.

Lét lögregla til skarar skríða um klukkan 21 í gærkvöldi, 20 að íslenskum tíma, þegar þungvopnað lið hennar réðst til inngöngu í tvær íbúðir í Sundsvall, aðra í Södermalm og hina í Nacksta.

Manndráp í bígerð

Skrifar lögregla á vefsíðu sína að aðgerðin í gær hafi verið liður í „umfangsmikilli starfsemi lögreglunnar gegn afbrotamönnum“ og hafi lögregla undanfarið haft mikinn liðsstyrk í Sundsvall vegna þessarar tengingar fíkniefnamarkaðarins þar við óöldina í Stokkhólmi undanfarið.

„Ég er með sjö manns handtekna eftir gærkvöldið og eru nokkrir þeirra grunaðir um meðal annars að leggja á ráðin um manndráp, gróft vopnalagabrot, gróft fíkniefnabrot og ráðagerðir um skemmdarverk með almannahættu í för með sér,“ segir Karin Everitt, aðstoðarhéraðssaksóknari í Sundsvall, í fréttatilkynningu en embætti hennar fór með stjórn aðgerðarinnar.

„Mér og lögreglunni í Sundsvall er létt, með vel heppnaðri aðgerð komum við í veg fyrir fjölda alvarlegra ofbeldisbrota, þar á meðal manndráp og nokkrar sprengingar,“ er enn fremur haft eftir saksóknara í tilkynningunni.

SVT

Aftonbladet

Expressen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert