Fatlaðir, snauðir og Frakkar vekja ólgu

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur enn sem komið er ekki tjáð …
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur enn sem komið er ekki tjáð sig opinberlega um álit sitt á ákveðnum greini með þjóðinni. AFP/Marin Ludovic

Stærsta fréttastofa Bandaríkjanna, The Associated Press, AP í daglegu tali, hefur lagt fram afsökunarbeiðni sína og fjarlægt afdrifaríka athugasemd úr málfarshorni sínu á samfélagsmiðlinum Twitter, „The AP Stylebook“, þar sem blaðamönnum er tekinn vari á að nota ákveðna greininn í ensku, „the“, með vissum þjóðfélagshópum, jafnvel heilum þjóðum.

Dæmið sem málfarsráðunautur AP valdi með ráðgjöf sinni féll hins vegar víða í grýttan jarðveg en hann mæltist til þess að greinirinn yrði ekki notaður með fötluðum, snauðum og frönskum, þar með bæri að forðast að tefla þessum hópum fram skriflega sem „the disabled, the poor and the French“ eins og það er orðað.

Rökstuddi ritari með því að greinirinn svipti framangreinda hópa hinu mannlega, væri „dehumanising“.

Velta valkostinum fyrir sér

Viðbrögðin komu víða að enda sáu 20 milljónir Twitter-notenda færsluna og 18.000 dreifðu henni áfram áður en fréttastofan byrgði brunninn. Barnið var þó löngu dottið ofan í hann.

Sendiráð Frakklands í Bandaríkjunum brást til dæmis við með því að breyta titli sínum á Twitter um stundarsakir í „sendiráð Frakkleikans í Bandaríkjunum“ eða „Embassy of Frenchness in the United States“. „Við veltum því fyrir okkur hver valkosturinn við þá frönsku [„the French“] væri,“ segir Pascal Confavreux, talsmaður sendiráðsins, í samtali við bandaríska dagblaðið New York Times.

Sætti málfarsábending AP logandi háði um gervallt lýðnetið og slógu netverjar margir hverjir á létta strengi, svo sem rithöfundurinn Sarah Haider sem skrifaði að fátt væri betur til þess fallið að svipta fólk mennskunni en að telja það til „the French“, þá væri illskárra að „þjást af frönskun“, eða „suffer from Frenchness“, og stjórnmálafræðingurinn Ian Bremmer stakk upp á að heppilegra orðalag væri ef til vill „fólk sem upplifði frönskun“, eða „people experiencing Frenchness“.

Í athugasemd eftir moldviðrið skrifaði AP að vísunin til Frakka í þessu samhengi hefði verið „óviðeigandi“ en þó ekki ætlað að strjúka neinum andhæris. Ákveðinn greinir með heiti hvaða hópa fólks sem vera skyldi gæfi til kynna einsleita hjörð fremur en hóp ólíkra einstaklinga. Af þeim sökum mælti AP gegn því að hópar á borð við sjúka, snauða, auðuga og háskólamenntaða væru spyrtir saman og steyptir í eitt mót með greininum „the“.

New York Times

BBC

The Guardian

mbl.is