Stöðvaðir með tonn af kókaíni við Kanaríeyjar

Spænsk löggæsluyfirvöld munu þurfa að farga tæplega 10 tonnum af …
Spænsk löggæsluyfirvöld munu þurfa að farga tæplega 10 tonnum af kókaíni. AFP

Spænska lögreglan haldlagði um fjögur og hálft tonn af kókaíni úr flutningaskipinu, Orion V, við strendur Kanaríeyja. Þetta er í annað sinn í mánuðinum sem spænsk yfirvöld ráðast í slíkar aðgerðir á svæðinu og leggja hald á annað eins magn. 

Eins og í fyrri aðgerðinni sigldi flutningaskipið undir fána Tógó. Orion V var á leið frá Suður-Ameríku og til Mið-Austurlanda með búfénað. 

Lengi fylgst með ferðum skipsins

Kókaínið var falið í fóðrunarvélum en skipið hefur verið undir smásjá fjölda eftirlitsstofnana, bæði bandarískum og evrópskum. 

Öll áhöfn skipsins var handtekin, alls 28 menn.

Eftir þessa haldlagningu hefur spænska lögreglan haldlagt um níu tonn af kókaíni það sem af er ári við strendur Kanaríeyja. 

Spánn hefur skipað sér sess sem helsta aðkomuleið fíkniefna inn í Evrópu sökum nálægðar ríkisins við Norður-Afríku og tengsla við gamlar nýlendur.

mbl.is