„Dulnefnið bjargaði lífi mínu“

Selma van de Perre í Lundúnum árið 1947. Þar settist …
Selma van de Perre í Lundúnum árið 1947. Þar settist hún að eftir stríð.

Hin hundrað ára Selma van de Perre, hollenskur gyðingur og andspyrnuhetja sem lifði af fangabúðir nasista, segist handviss um að það að hafa tekið upp dulnefni í síðari heimsstyrjöldinni hafi bjargað lífi hennar.

Hún gaf út endurminningar sínar, Ég heiti Selma (Mijn naam is Selma), árið 2020 þegar hún var 98 ára og er íslensk þýðing Rögnu Sigurðardóttur komin út á hljóðbók og rafbók hjá Storytel.

Eftir að faðir hennar hafði verið sendur í fangabúðir, móðir hennar og systir fóru í felur dvaldi Van de Perre á ýmsum stöðum. Hún fékk inni hjá lækni sem var meðlimur í andspyrnuhreyfingunni og varð hún vitni að fundum hreyfingarinnar á heimilinu. 

Kvöld eitt bauð Van de Perre fram aðstoð sína og þar með var hún orðin meðlimur í andspyrnuhreyfingu Hollands.

Á stefnumót með nasista

Til að byrja með voru störfin einföld, t.d. að setja ólögleg dagblöð í umslög, en smám saman urðu þau flóknari og hættumeiri. Hún fór að ferðast með stóra ferðatösku fulla af ólöglegum pappírum, skilríkjum og peningum milli borga. Þá var hún send á stefnumót með þýskum hermanni til þess að geta stolið af honum skilríkjum.

Stærsta og hættulegasta verkefni var líklega þegar hún var send inn á skrifstofur nasista í Frakklandi til þess að afhenda bandamanni andspyrnunnar, sem þar starfaði, tösku með skjölum.

„Þetta var allt svakalega stressandi en þegar öllu er á botninn hvolft þá leit ég bara á þetta sem hverja aðra vinnu. Maður vandist þessu fljótt. Og ég var ung, bara 19 ára þegar ég byrjaði.“

Dulnefnið Marga

Selma litaði hárið á sér ljóst og tókst að leyna því að hún væri af gyðingaættum. Hún tók upp dulnefnið Margareta van der Kuit, stytt í Marga, og útvegaði sér opinber skilríki með því nafni. „Það bjargaði lífi mínu. Það er ég handviss um.

Þegar hún var að lokum handsömuð og send í fangabúðir gerðu nýju skilríkin það að verkum að ekki komst upp um að hún var gyðingur. Hún var því ekki tekin af lífi eins og aðrir í fjölskyldunni heldur látin vinna í Ravensbrück-búðunum í Þýskalandi

Mun ítarlegra viðtal við Selmu van de Perre má finna á síðum 42-43 í Morgunblaðinu sem út kom á laugardag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert