Stríðsyfirlýsing ef Pútín verður handtekinn

Pútín Rússlandsforseti.
Pútín Rússlandsforseti. AFP/Gavriil Grigorov

Dmitrí Medvedev, fyrrrverandi forseti Rússlands, segir að rússnesk stjórnvöld muni líta á allar tilraunir til að handtaka Vladimír Pútín Rússlandsforseta, eftir að Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn gaf út handtökuskipun á hendur honum, sem stríðsyfirlýsingu.

Medvedev, sem var forseti árin 2008 til 2012, hefur verið sífellt opinskárri í ummælum sínum eftir að Pútín sendi hermenn inn í Úkraínu.

Seint í gærkvöldi sagði hann að hægt væri að beita rússneskum vopnum gegn hvaða þjóð sem er yrði Pútín handtekinn.

Dmitrí Medvedev, fyrrverandi Rússlandsforseti.
Dmitrí Medvedev, fyrrverandi Rússlandsforseti. AFP/Sergei Karpukhin

Alþjóðlegi stríðsglæpadómstóllinn í Haag gaf í síðustu viku út handtökuskipun á hendur Pútín fyrir að flytja úkraínsk börn úr landi.

„Ímyndum okkur – það er ljóst að þetta er staða sem mun aldrei koma upp – en samt sem áður ímyndum okkur að þetta gerist,“ sagði Medvedev.

„Núverandi leiðtogi kjarnorkuríkis mætir á svæðið, til dæmis í  Þýskalandi, og er handtekinn. Hvað á það að þýða? Stríðsyfirlýsing gegn Rússlandi,“ bætti hann við.

Hann hélt áfram og sagði að ef þetta gerðist myndu „öll okkar úrræði, eldflaugar og annað, fljúga í átt að Bundestag [þýska þinghúsinu], á skrifstofu kanslarans og svo framvegis.“

Medvedev, sem er varaformaður rússneska öryggisráðsins, sagði að samskipti Rússa við Vesturlönd eigi eftir að versna enn frekar vegna ákvörðunar dómstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert