Frakkar í fótspor Alþingis

Íslenskir ráðherrar tóku þátt í minningarathöfn um fórnarlömb hungursneyðarinnar í …
Íslenskir ráðherrar tóku þátt í minningarathöfn um fórnarlömb hungursneyðarinnar í nóvember í fyrra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Franska þingið samþykkti í fyrradag ályktun um að hungursneyðin í Úkraínu 1932-1933 væri hópmorð. Fylgja Frakkar þar með í fótspor annarra vestrænna ríkja, þar á meðal Íslands, en Alþingi samþykkti álíka tillögu í síðustu viku.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, og Dmítró Kúleba utanríkisráðherra þökkuðu báðir Frökkum fyrir ályktun þingsins á Twitter.

„Alræðisstjórnin í Kreml, núverandi og þáverandi, gat ekki eyðilagt og mun aldrei eyðileggja sannleikann og réttlætið,“ sagði Selenskí á Twitter.

Evrópuþingið samþykkti í desember ályktun um að hungursneyðin, sem stundum er kölluð Holodomor, væri hópmorð og skoraði um leið á Rússland að biðjast afsökunar fyrir hönd Sovétríkjanna. Þá var skorað á öll önnur ríki og alþjóðastofnanir sem ekki hefðu viðurkennt hungursneyðina sem hópmorð að gera það.

Áætlað er að á bilinu 3,5 til 5 milljónir Úkraínumanna hafi farist í hungursneyðinni, en talið er að aðgerðir Sovétstjórnarinnar hafi gert hana verri en ella, þar sem hún gerði kornbirgðir og önnur matvæli upptæk. Rússar hafa neitað því að um viljandi morð hafi verið að ræða.

mbl.is