Lík tveggja drengja fundust í ám Manhattan

Manhattan-eyja.
Manhattan-eyja. AFP/Leonardo Munoz

Lík tveggja drengja, sem hurfu fyrir meira en viku síðan, fundust á sitthvorum staðnum í ám Manhattan-eyjar.

Dagblaðið New York Times greinir frá líkfundi hins ellefu ára gamla Alfa Barrie og hins 13 ára gamla Garrett Warren. Þeir voru vinir. 

Barrie bjó í Morrisania-hverfinu í Bronx. Síðast sást til hans 12. maí en hvarf hans var tilkynnt lögreglu 14. maí. Lík hans fannst síðan í Hudson-ánni í gærmorgun. 

Warren sást síðast við heimilið sitt í Harlem aðfaranótt 13. maí. Hvarf hans var tilkynnt lögreglu á mánudag en lík Warren fannst í Harlem-á á fimmtudagsmorgun. 

Óvart drukknað

Lögregla rannsakar nú hvernig andlát drengjanna bar að. Í gær greindi talskona réttarmeinafræðings frá því að Warren hefði drukknað. 

Óvíst er af hverju drengirnir voru í ánum en mögulegt er að þeir hafi farið ofan í á sama stað. 

Móðir og systir Barrie sögðu í viðtali að þær hefðu síðast séð Barrie er hann var á leið í skólann að morgni 12. maí. Systir Barrie sagði að hún þekkti ekki Warren. 

Vinir drengjanna sem voru með þeim 12. maí sögðu fjölskyldu Barrie að þeir hefðu síðast séð þá í Harlem.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert