Ringulreið á flugvöllum í Bretlandi

Ringulreið og langar biðraðir mynduðust á flugvöllum víða um Bretland …
Ringulreið og langar biðraðir mynduðust á flugvöllum víða um Bretland í gærkvöldi og í dag vegna bilaðra vegabréfahliða. Myndin er tekin á Heathrow-flugvelli í dag. Ljósmynd/Twitter

Mikil ringulreið skapaðist á flugvöllum víða um Bretland í gær og dag og lentu farþegar í löngum biðröðum. Ástæðan eru bilanir í rafrænum vegabréfahliðum, en skoða þurfti vegabréf handvirkt.

Gerðu bilanir vart við sig á Heathrow-flugvelli, Manchester og á Gatwick. Fjallað er um ringulreiðina í breskum miðlum í kvöld. 

Vandræðin hófust á föstudagskvöld þegar margir voru á leið í langt helgarfrí yfir hvítasunnu. 

Farþegar sem lentu í Bretlandi í gær þurftu því að fara í gegnum handvirkt vegabréfaeftirlit, en ekki rafrænt. Allir flugvellir sem notast við rafræn vegabréfahlið lentu í vandræðum. 

Lögregla skarst í leikinn

BBC ræddi við Marc nokkurn Baret sem flaug frá Chicago í Bandaríkjunum til Manchester með millilendingu á Heathrow. Þurfti hann að breyta fyrirætlunum sínum eftir að hafa staðið í biðröð í yfir tvær klukkustundir í London. 

„Það ríkti algjör ringulreið í vegabréfaeftirlitinu. Það voru margir orðnir ansi pirraðir á þessu og allavega tveir reyndu að troða sér fram fyrir röðina, lögreglan þurfti að skerast í leikinn. Svo leið yfir einn,“ sagði Baret í samtali við breska ríkisútvarpið. 

Annar farþegi sem lenti á Gatwick sagði ástandið algjöran brandara. Stephen þessi sagðist hafa beðið í tvær og hálfar klukkustundir síðdegis í dag og ekki haft aðgang að vatni. „Það var mjög heitt, og það var aðeins einn staður sem maður gat fyllt á vatnsflöskuna sína í röðinni. Og ekkert í landamæraeftirlitinu. Ég var ekki með flösku og var orðinn mjög þyrstur,“ sagði hann.

Kerfið er að sögn BBC komið í lag og á það nú að virka sem skyldi. 

mbl.is