Leynilegum lögreglustöðvum verði lokað

Kínversk yfirvöld nota sendiráð sín til að fylgjast með eigin …
Kínversk yfirvöld nota sendiráð sín til að fylgjast með eigin borgurum. AFP

Bresk yfirvöld hafa skipað Kínverjum að loka kínverskum lögreglustöðvum sem starfræktar eru á breskri grundu. Tom Tugendhat, öryggismálaráðherra, greindi frá þessu við breska þingið í dag. Bretar eru ósáttir við að Kínverjar noti sendiskrifstofur sínar til þess að hafa stjórn á kínverskum ríkisborgurum utan Kína og jafnvel til þess að þvinga fólk til að snúa aftur til Kína með óhefðbundnum leiðum.

Sendiráð Alþýðulýðveldisins Kína svaraði um hæl að búið væri að loka öllum slíkum lögreglustöðvum. The Times greindi í apríl frá því að kínverskur kaupsýslumaður, Lin Ruiyou að nafni, hafi rekið heimsendingu á mat í Lundúnum. Samhliða því hafi heimsendingarfyrirtækið líka verið óformleg lögreglustöð af þeirri gerð sem nú er bönnuð. Sendiráð Kína neitaði staðfastlega þeirri frétt.

Mannréttindahópar hafa vakið athygli á tilvist þessarar utanaðkomandi löggæslu en breska lögreglan hefur til þessa ekki fundið neinar sannanir um ólöglegt athæfi Kínverja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert