Verkföll blasa við á Heathrow

Starfsfólk hyggst fara í verkfall.
Starfsfólk hyggst fara í verkfall. AFP

Verkfall starfsfólks í öryggisgæslu á Heathrow-flugvellinum í Lundúnum í Bretlandi gæti haft áhrif á starfsemi flugvallarins í sumar eftir að starfsfólk samþykkti verkfallsaðgerðir í 31 dag í sumar.

Aðgerðirnar má rekja til kjaradeilu 2000 starfsmanna sem starfa í komusal 3 og 5 á flugvellinum. Aðgerðirnar hefjast 24. júní og standa til 27. ágúst. Miða þær að því að valda sem mestu raski á starfsemi flugvallarins yfir þann tíma árs þar sem ferðamannastraumurinn er mestur.

„Tafir, niðurfelling flugs og truflun í áætlunarflugi eru óumflýjanlegar,“ er haft eftir Wayne King, talsmanni verkalýðsfélags öryggistarfsmanna.

Þá hefur yfirstjórn á Heathrow verið tilkynnt um að starfsfólk muni halda verkföllum áfram fram á haustið ef ekki verður hlustað á kröfur starfsfólks.

Síðastliðið ár hefur einkennst af verkföllum í bresku samfélagi. Þannig hafa t.a.m. lestarstarfsmenn og starfsfólk í póstþjónustu lagt niður störf.

Verðbólga er á undanhaldi í Bretlandi en er þó enn 8,7%. Hækkandi matvæla- og orkuverð hefur bitið almenning hvað mest.

mbl.is