Margmenni á Menningarnótt

Jón Gnarr setur Menningarhátíðina 2010.
Jón Gnarr setur Menningarhátíðina 2010.

Jón Gnarr, borgarstjóri, setti Menningarnótt formlega klukkan 13 í dag í tjaldi Ferðamálastofu Íslands við Geirsgötu 9 að viðstöddu fjölmenni. Borgarstjóri bauð gestasveitafélag Menningarnætur, Akureyri, velkomið og tók við gjöf úr hendi Eiríks B. Björgvinssonar bæjarstjóra.

Um leið og borgarstjóri setti formlega Menningarnótt málaði hann fyrsta strikið á 7 metra löngu listaverki sem 7 listamenn munu mála í tjaldinu á meðan á hátíðinni stendur í dag og kvöld.

Síðan kl. 14 afhjúpaði borgarstjóri skilti við Borgartréð 2010 í Víkurgarðinum við Aðalstræti. Borgartréð er Silfurreynir sem talinn er elsta tré borgarinnar, gróðursettur árið 1884 af Schierbeck landlækni. Tréð er því um 130 ára gamalt og 10.9 m á hæð og er vel að titlinum komið, segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Menningarnótt Reykjavíkur er nú haldin í 15. sinn. Hefur dagskráin gengið vel það sem af er degi, og að sögn lögreglu verið jafn straumur fólks í miðborgina og fer fjölgandi eftir því sem líður á daginn. Í boði eru rúmlega 400 viðburðir af öllum stærðum og gerðum um alla borg. Boðið verður upp á stórtónleika bæði á Arnarhóli og á Ingólfstorgi í kvöld og Menningarnótt lýkur svo með flugeldasýningu sem hefst klukkan 23.00.

Reykjavíkurborg minnir á að margar götur miðborgarinnar eru lokaðar fyrir bílaumferð á meðan Menningarnótt stendur. Borgarbúum og gestum er bent á að ókeypis er hinsvegar í strætó á Menningarnótt.

Borgarstjóri afhjúpar skilti við Borgartríð við Aðalstræti.
Borgarstjóri afhjúpar skilti við Borgartríð við Aðalstræti.
Fjölmargir kórar eru á ferðinni á Menningarnótt í dag.
Fjölmargir kórar eru á ferðinni á Menningarnótt í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær