Kio Briggs handtekinn í Danmörku með 800 E-töflur

Kio Briggs í Hæstarétti meðan málflutningur fór þar fram.
Kio Briggs í Hæstarétti meðan málflutningur fór þar fram. Morgunblaðið/Ásdís

Kio Alexander Ayobambele Briggs, sem handtekinn var á sínum tíma við komuna til Íslands með fíkniefni í farangri, var handtekinn í gær í Sönderborg í Danmörku vegna tæplega 800 E-taflna sem hann hafði í fórum sínum.

Briggs hefur verið úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald í Danmörku vegna málsins. Áður hafði lögreglan þar fundið fíkniefni, sem hann er grunaður um að eiga.Briggs kom hingað til lands 1. september á síðasta ári og við leit fannst 2.031 e-tafla í farangri hans. Briggs var kærður og hlaut 7 ára fangelsisdóm við fyrstu meðferð málsins fyrr í vor, en hann neitaði ávallt sakargiftum og sagðist ekki hafa vitað af fíkniefnunum. Hæstiréttur ómerkti hins vegar dóminn og sendi hann aftur í hérað til nýrrar málsmeðferðar, þar sem Briggs var sýknaður. Hæstiréttur staðfesti síðan sýknudóminn hinn 16. júlí sl. Í kjölfarið krafði Briggs íslenska ríkið um 27 milljónir í skaðabætur vegna 10 mánaða gæsluvarðhalds og farbanns sem hann sætti hér á landi áður en hann var sýknaður í Hæstarétti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert