Dorrit og Ólafur Ragnar hafa ákveðið að heitbindast

Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson tilkynntu á Bessastöðum í …
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson tilkynntu á Bessastöðum í dag að þau hefðu ákveðið að heitbindast. mbl.is/Kristinn

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og Dorrit Moussaieff tilkynntu á blaðamannafundi á Bessastöðum sem hófst laust eftir klukkan 14 í dag að þau hefðu ákveðið að heitbindast og staðfesta með þeim hætti ákvörðun um að eyða lífinu saman. Hann sagði að dagsetning giftingardagsins yrði ákveðin síðar.

Ólafur Ragnar sagði á blaðamannafundinum að það hefði verið sér mikil gæfa á erfiðustu tímum í sínu lífi að hitta Dorrit og kynnast henni smátt og smátt og fá á ný trú á lífið og hamingjuna og ástina. Hann sagðist vilja þakka íslensku þjóðinni fyrir þann skilning, velvilja og hlýhug sem hún hefði sýnt sér á undanförnum mánuðum. Hann sagði að gæfan hefði verið sér hliðholl og fyrir það vildi hann þakka á þessum degi. Dorrit sagðist vilja þakka Döllu og Tinnu, dætrum Ólafs Ragnars fyrir stuðning og hvatningu sem hefði gert þessa ákvörðun auðveldari en ella. Hún sagðist einnig vilja þakka íslensku þjóðinni fyrir þolinmæði og gæsku sem hún hefði sýnt sér. Hún sagðist myndu gera sitt besta til að verða góður fulltrúi landsins sem hún kynni æ betur að meta. Dorrit Moussaieff er fædd og uppalin í Jerúsalem í Ísrael en fluttist ung til Lundúna þar sem hún hefur átt heimili síðan. Samkvæmt upplýsingum frá embætti forseta Íslands hefur hún um árabil fengist við hönnun skartgripa og margvísleg viðskipti. Hún hefur einnig haft umsjón með innréttéttingu gamalla og sögufrægra húsa, og verið greinarhöfundur í breskum tímaritum og blöðum. Auk ensku talar Dorrit frönsku, þýsku og hebresku og er nú að læra íslensku. Meðal áhugamála hennar eru lista- og menningarsaga, útivist, skíðaíþróttir, sund og hestamennska. Foreldrar Dorritar eru Shlomo og Alisa Moussaieff og er faðir hennar víðkunnur fyrir hið einstætt safn sitt af forngripum frá tímum gamla og nýja testamentisins. Fjölskyldan hefur einnig varðveitt eitt elsta og viðamesta safn fornra gyðinglegra handrita og hefur nýlega tilkynnt að safnið verði afhent háskólanum í Tel Aviv. Móðir Dorritar var á yngri árum náinn samstarfsmaður David Ben-Gurion, fyrsta forsætisráðherra Ísraels. Systur Dorritar eru tvær: Tamara sem býr í New York, og Sharon sem býr ásamt fjölskyldu sinni í Tel Aviv.
mbl.is