Meginverkefnum nefndarinnar lauk vorið 1999

Björn Bjarnason menntamálaráðherra segir að meginverkefnum byggingarnefndar Þjóðleikhússins hafi verið lokið vorið 1999 þegar nefndin kynnti greinargerð um nýja áætlun um væntanlegar framkvæmdir í húsinu og kostnað við þær. Meðal annars þess vegna hefði verið ákveðið að skipa ekki nýjan mann í nefndina þegar einn nefndarmanna lést á síðasta ári.

Svavar Gestsson, þáverandi menntamálaráðherra, skipaði byggingarnefnd fyrir Þjóðleikhúsið í febrúar 1989, en þá lá fyrir ákvörðun um að fara út í miklar endurbætur á leikhúsinu. Viðhald á húsinu hafði verið lítið í mörg ár og má segja að húsið hafi hvorki haldið vindi né vatni. Í byggingarnefndina voru valdir Skúli Guðmundsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar, Árni Johnsen alþingismaður, Runólfur Birgir Leifsson, deildarstjóri í menntamálaráðuneytinu, Guðni Jóhannesson verkfræðingur og Sveinbjörn Óskarsson, deildarstjóri í fjármálaráðuneytinu. Gísli Alfreðsson þjóðleikhússtjóri starfaði einnig með nefndinni. Menntamálaráðherra réð Gunnar St. Ólafsson byggingaverkfræðing, sem verkefnisstjóra í þjónustu byggingarnefndar og starfaði hann meðan meginendurbæturnar fóru fram. Skúli var skipaður formaður byggingarnefndar, en Árni varaformaður. Árni tók hins vegar við formennsku í nefndinni á árinu 1990. Hann hafði áður gegnt formennsku í tveimur nefndum sem skipaðar voru af fyrrverandi menntamálaráðherrum til að undirbúa endurbætur á Þjóðleikhúsinu og kanna ástands hússins.

Viðgerðir á Þjóðleikhúsinu voru það umfangsmiklar að óhjákvæmilegt var að loka húsinu og var það gert í marsbyrjun 1990. Viðhaft var lokað útboð á fyrsta áfanga framkvæmda og var tilboði Ítaks hf. tekið en fyrirtækið bauðst til að taka þær að sér fyrir um 80% af kostnaðaráætlun, sem nam 246 milljónum á verðlagi þess árs. Þjóðleikhúsið var opnað að nýju 22. mars 1991 að loknum viðgerðum.

Viðgerðum á húsinum var hins vegar fráleitt lokið og á næstu árum var ráðist í umtalsverðar endurbætur á húsinu.

Átti að skipuleggja framhald uppbyggingarstarfs hússins

Sú spurning vaknar hins vegar hvers vegna nefndin er enn starfandi 10 árum eftir að meginverkefnum nefndarinnar lauk og raunar hefur komið fram að bæði forsætisráðherra og nefndarmönnum í fjárlaganefnd var ókunnungt um að nefndin væri enn starfandi.

Björn Bjarnason menntamálaráðherra sagði að árið 1996 hefði hann endurskipað nefndina jafnframt því sem nefndarmönnum var fækkað úr fimm í þrjá. Í nefndina voru þá skipaðir Árni Johnsen, Stefán Baldursson þjóðleikhússtjóri og Steindór Guðmundsson, þáverandi framkvæmdastjóri Framkvæmdasýslu ríkisins.

"Menntamálaráðuneytið taldi eðlilegt, að starfandi væri nefnd til að fjalla um endurbætur og uppbyggingu Þjóðleikhússins eins og segir í erindisbréfi hennar í ljósi þess, að framkvæmdum við húsið væri ekki lokið. Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar frá 13. febrúar 1996 hefur það meðal annars verið hlutverk nefndarinnar að skipuleggja framhald uppbyggingarstarfs hússins, gera áætlanir um kostnað og tillögur um leiðir og verklag."

Áætlunin barst ráðuneytinu vorið 1999

Björn sagði að 31. júlí 1997 hefði ráðuneytið óskað eftir því að byggingarnefnd Þjóðleikhússins gerði nýja áætlun um væntanlegar framkvæmdir þar á næstu árum og kostnað við þær. Óskaði ráðuneytið eftir því að Framkvæmdasýsla ríkisins kæmi að þessari áætlanagerð þannig að gætt væri krafna um opinberar framkvæmdir. "Með hliðsjón af slíkri framkvæmdaáætlun og kostnaðarmati á grundvelli hennar mundi ráðuneytið beita sér fyrir fjárveitingum til endurbóta á Þjóðleikhúsinu. Greinargerð um kostnaðaráætlun og lúkningu endurreisnar Þjóðleikhússins barst ráðuneytinu vorið 1999 og var hún kynnt stjórn Endurbótasjóðs menningarbygginga."

Steindór Guðmundsson lést á síðasta ári en menntamálaráðuneytið hefur ekki skipað mann í nefndina í hans stað. Menntamálaráðherra var spurður hvers vegna það hefði ekki verið gert.

"Fulltrúinn í nefndinni, sem lést, var framkvæmdastjóri Framkvæmdasýslu ríkisins. Meginverkefni nefndarinnar var lokið með þeirri greinargerð, sem var kynnt vorið 1999. Á hinn bóginn hélt nefndin áfram að taka afstöðu til einstakra viðhaldsframkvæmda og endurbóta undir forsjá Framkvæmdasýslu ríkisins og var ekki talin ástæða til að nýr forstjóri hennar tæki sæti í nefndinni, enda fylgdist Framkvæmdasýslan með öllum framkvæmdum og annaðist greiðslu reikninga."

"Allóformlegt" nefndarstarf

Árni Johnsen sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að endurbætur á Þjóðleikhúsinu, sem hófust árið 1990, hefðu kostað rúmlega einn milljarð króna.

Hann sagði um nefndarstarfið að Steindór hefði aldrei verið mjög virkur í nefndinni. Starfið hefði að mestu hvílt á sínum herðum í samráði við þjóðleikhússtjóra og hans fólk.

"Nefndarstarfið hefur verið unnið allóformlega. Þetta hefur farið þannig fram að það hefur verið metið af þjóðleikhússtjóra og hans fólki hvað væri brýnast að gera, auk þess sem það hefur komið upp neyðarstaða í ákveðnum tilvikum og þá hefur verið reynt að vinna úr því eftir bestu getu."

Árni sagði að það hefði komið fyrir að hann hefði útvegað byggingarefni, en meginreglan hefði þó verið að verkstjórar hefðu séð um að útvega það.

Árni hefur haft prókúrrétt fyrir byggingarnefndina. Greiðsluflæðið hefur farið í gegn um Framkvæmdasýslu ríkisins sem séð hefur um að færa bókhald fyrir nefndina.

Hann sagði að endurbótum hefði hins vegar ekki verið lokið þó að starfsemi hefði hafist í húsinu að nýju. "Það var í reynd búið að opna stórt sár í húsinu, inn í allt lagnakerfi hússins, en það var meira og minna í rúst. Ég á þar við rafmagn, vatn, öryggiskerfi, loftræstistokka og hreinlætiskerfi. Ástandið hefur verið þannig undanfarin ár að húsið er rekið á undanþágu frá mánuði til mánaðar. T.d. var þannig komið í vetur í Þjóðleikhúskjallaranum að menn höfðu viku frest til að gera þar endurbætur, ella yrði honum lokað." Árni sagði að þess vegna hefði verið ákveðið að byggingarnefndin starfaði áfram til að ljúka nauðsynlegum endurbótum.

Það hefur vakið athygli að öll stærri verk í Þjóðleikhúsinu hafa verið unnin af einum verktaka, Ístaki hf. Síðustu ár hefur fyrirtækinu verið falið verkefni án útboðs.

"Þetta var gífurlega umfangsmikið verkefni sem var unnið mjög hratt. Verktakinn sem var lægstbjóðandi á sínum tíma, Ístak, var kominn inn í allt kerfi hússins. Á síðustu árum höfum við verið að lagfæra bita og bita og ekki síst að grípa inn í neyðarstöður. Það hefur því verið talið heppilegast að njóta reynslu þessa verktaka. Það er nánast í öllum tilvikum þannig að það er ekki hægt að bjóða þetta út. Við höfum tekið fyrir litla kafla í einu og það hefur ekki verið ljóst hvert umfangið er í raun og veru fyrr en farið var af stað," sagði Árni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert