Uppbygging Landspítala við Hringbraut sögð skynsamleg

Séð yfir það svæði sem nefndin leggur til að framtíðaruppbygging …

Séð yfir það svæði sem nefndin leggur til að framtíðaruppbygging Landspítla-Háskólasjúkrahúss eigi sér stað.
mbl.is

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, segir að niðurstaða nefndar, sem gerði tillögur að framtíðaruppbyggingu Landspítala-Háskólasjúkrahúss, væru skynsamlegar, rökréttar og vandlega undirbúnar. Hann kveðst vonast til þess að um þær geti skapast víðtæk sátt.

Í tillögunum er lagt til að sjúkrahúsið verði byggt upp við Hringbraut og að nýbyggingar rísi aðallega sunnan núverandi Hringbrautar. Nefndin áætlar að stofnkostnaður við uppbyggingu sjúkrahússins á þessu svæði muni nema um 30 milljörðum króna og framkvæmdirnar taki 14-17 ár. Ráðherra sagði að ákvörðun við uppbyggingu spítalans árið 2002 mætti líkja við þá ákvörðun að byggja Landspítala á öndverðri liðinni öld. Ráðherra sagðist ætla að leggja allt kapp á að teknar yrðu ákvarðanir sem samræmast tillögum nefndarinnar. "Ég hef kynnt þessar hugmyndir í ríkisstjórn og á eftir að gera það með ítarlegum hætti. Ég hef kynnt forsætisráðherra þær sem oddvita ríkisstjórnarinnar, og menntamálaráðherra, sem yfirmanni háskólans. Hvarvetna hefur verið tekið vel í þessar tillögur, sem ég tel afar mikilvægt. Það verður að vera breið almenn flokkspólitísk og fagleg sátt um uppbyggingu þungamiðju heilbrigðisþjónustunnar," sagði ráðherra meðal annars. Hann kvaðst jafnframt vonast eftir stuðningi og skilningi stjórnarandstöðunnar við tillögunum. Ráðherra sagði að um væri að ræða langtímaverkefni, en skipa þyrfti starfshóp til þess að fylgja þessum tillögum eftir svo hægt yrði að kynna málið fyrir ríkisstjórninni. Ingibjörg Pálmadóttir, formaður nefndar um framtíðaruppbyggingu Landspítala-Háskólasjúkrahúss, tók í svipaðan streng, sagði um að ræða stærstu ákvörðun sem tekin hefði verið í heilbrigðismálum frá því að ákveðið var að reisa Landspítala. "En við værum ekki að tala um þessa hluti ef sameiningin hefði ekki átt sér stað og ekki gengið eins vel og raun ber vitni." Ingibjörg sagði jafnframt að það væri forgangsverkefni í heilbrigðisþjónustu að byggja sjúkrahús sem væri í fararbroddi í Evrópu. "Ég tel að við þurfum ekki mikið til þess að vera í fararbroddi." Hún sagði að gróf kostnaðaráætlun við uppbyggingu nýs spítala næmi 30 milljörðum króna. Skýrsla nefndarinnar í heild sinni.
mbl.is