Ekki felst í áliti umboðsmanns að ráðherra hafi brotið lög

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni að allt of djúpt sé í árina tekið, þegar sagt sé að í áliti umboðsmanns Alþingis um skipun í stöðu hæstaréttardómara á síðasta ári felist sú niðurstaða, að Björn hafi gerst brotlegur við lög.

„Hitt er annað mál, að ég þarf auðvitað að grandskoða álitið og draga mínar ályktanir af því, en eins og sagði í bréfi umboðsmanns, sem ég vitnaði til í upphafi, snýr málið að því, hvort alþingi telji nauðsynlegt að breyta lögum vegna álitsins," segir Björn á heimasíðunni.

Hann segir að umboðsmaður Alþingis fari þá leið að móta nýja reglu í áliti sínu frá 3. maí og hafi sætt harðri gagnrýni frá Jóni Steinari Gunnlaugssyni lögmanni og prófessor vegna þess. Segist Björn vera sammála Jóni Steinari um nauðsyn þess, að álitsgjafar og dómarar velji lögin frekar en reglu, sem þeir sjálfir móta, „því að hvernig eiga þeir, sem framkvæma lögin, að standa að framkvæmdinni, ef síðar koma aðrir, sem segja, að ekki eigi að fara að því, sem stendur í lögunum, heldur nýrri reglu, sem þessir álitsgjafar eða dómarar móta?"

Segir Björn að um þetta atriði sé ágreiningur meðal lögfræðinga og hann snerti að sjálfsögðu ekkert þá ákvörðun hans að skipa Ólaf Börk Þorvaldsson hæstaréttardómara í ágúst 2003. Umboðsmaður fylgi svonefndri framsækinni túlkun á 4. grein dómstólalaganna.

Heimasíða Björns Bjarnasonar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert