Jón Steinar skipaður hæstaréttardómari

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson.

Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður, hefur verið skipaður dómari við Hæstarétt Íslands frá og með 15. október, að tillögu Geirs H. Haarde, setts dómsmálaráðherra. Jón Steinar sagðist í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins taka embættisveitingunni með auðmjúkum huga. „Ég er staðráðinn í því að reyna að standa undir þeim miklu kröfum sem felast í því að skipa mig í þetta embætti,“ sagði Jón Steinar.

Hann vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti.

Sjö sóttu um embættið sem losnar þegar Pétur Kr. Hafstein hættir störfum sem hæstaréttardómari nú um mánaðamótin.

Aðrir umsækjendur voru Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari, Eggert Óskarsson, héraðsdómari, Eiríkur Tómasson, prófessor, Hjördís Björk Hákonardóttir, dómstjóri, Leó E. Löve, hæstaréttarlögmaður og Stefán Már Stefánsson, prófessor.

Jón Steinar Gunnlaugsson er fæddur árið 1947. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1973 og hefur starfað sem lögmaður frá árinu 1974. Hann hefur verið prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík frá árinu 2003.

mbl.is