Dómsmálaráðherra telur óþarft að breyta fyrirkomulagi við skipan í Hæstarétt

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Björn Bjarnason dómsmálaráðherra við umræður utan dagskrár á Alþingi í dag, hvernig hann ætlaði að bregðast við áliti umboðsmanns Alþingis varðandi skipan dómara við Hæstarétt í fyrrasumar. Össur sagði álitið vera eina samfellda rassskellingu fyrir ráðherrann, frá upphafi til enda.

Össur spurði Björn hvort hann væri reiðubúinn til samstarfs við þingið allt, ekki aðeins meirihlutann, til að nota sumarið til að komast að sameiginlegri niðurstöðu um skipan Hæstaréttar í framtíðinni.

Össur sagði að ráðherra hefði vakið miklar deilur með skipan í Hæstarétt sem að öllum líkindum stæðist ekki lög. Skipan bæri öll merki valdhroka sem orðið væri aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins. Jafnréttisráð hefði þegar sagt að skipunin bryti alvarlega gegn jafnréttislögum. Umboðsmaður hefði gert alvarlegar athugasemdir við skipanina. Álitið væri samfelldur áfellisdómur yfir embættisfærslu ráðherrans og ýmsar alvarlegar athugasemdir væri þar að finna um hvernig ráðherra hefði farið á skjön við lög um dómstóla.

Hið alvarlegasta varðaði þá skýringu að ráðherrann hafi upp á sitt einsdæmi - og án þess að fá mat Hæstaréttar - ákveðið að nota þekkingu umsækjenda á tilteknu sviði til að gera upp á milli þeirra. Hann hefði hins vegar ákveðið þær reglur eftir á og það áteldi umboðsmaðurinn harðlega. Segði umboðsmaður beinlínis í áliti sínu að fyrst hafi ráðherra valið kandidatinn í embættið en síðan valið rökin til að réttlæta valið. „Þetta heitir á lagamáli ómálefnalegar forsendur en á kjarnyrtri íslensku valdníðsla,“ sagði Össur.

Umboðsmaðurinn gæti ekki tekið fram fyrir hendur á ráðherranum en gripi til þess eina ráðs sem hann hefur, að beina því til Alþingis að taka völdin af ráðherranum. Hann óskaði eftir því að þingið tæki afstöðu til þess hvort skipan hæstaréttardómara ætti að hljóta staðfestingu allrar ríkisstjórnarinnar í heild eða þjóðþingsins. Setur fram hugmyndir af hugsanlegum breytingum sem allar hefðu þann tilgang einan að vernda Hæstarétt fyrir ráðherrum eins og dómsmálaráðherra. Sagði Össur Samfylkinguna vilja að Alþingi kæmi að endanlegri staðfestingu dómara við Hæstarétt.

Gat ekki farið að lagareglu sem aldrei hefur verið sett af Alþingi

Björn Bjarnason sagðist taka álit umboðsmanns alltaf alvarlega. Þau væru til leiðbeiningar og rík ástæða væri fyrir þingmenn að íhuga álitið sérstaklega því fullyrða mætti að við setningu laga um dómstóla hafi þingmenn ekki talið að með því samþykki yrði sú grundvallar breyting á skipan hæstaréttardómara sem leiða mætti af lögskýringum umboðsmanns.

Björn sagði að Alþingi hefði aldrei samþykkt neina lagareglu sem styddi það óvænta sjónarmið umboðsmanns að senda hafi þurft mál aftur til umsagnar í Hæstarétti eftir að hann ákvað að leggja meistarapróf í Evrópurétti til grundvallar við málefnalega ákvörðun sína.

Dómsmálaráðherra sagði að ýmsir lögfræðingar aðrir en umboðsmaður hafi látið í ljós þá eindregnu skoðun að hann hafi uppfyllt lagaskyldu sína um álitsumleitan réttarins. Ekki væri unnt að gera þá kröfu til ráðherra að hann fari að lagareglu sem aldrei hafi aldrei verið sett af Alþingi.

Ekki Hæstaréttar að segja um hvar rétturinn stæði höllum fæti

„Ég vil láta í ljós þá skoðun að þótt Hæstarétti sé vel treystandi til að meta hæfi umsækjenda um embætti þá sé ekki þar með sagt að dómarar réttarins séu allra manna heppilegastir til að kveða upp úr með það á hvaða sviði rétturinn standi höllum fæti hverju sinni og á hvaða sviði hann mætti helst bæta við sig sérfræðikunnáttu,“ sagði Björn.

Hann sagði skipan sína hafa byggst á málefnalegum forsendum. Alltaf mætti hins vegar deila um það hvenær nægilega væri rannsakað, hversu mikið hver og einn umsækjandi kynni fyrir sér á hverju sviði, en sagðist hafa talið ítaralegar umsóknir umsækjenda hafa gefið fullnægjandi mynd.

Skilur ekki dómstólalögin með sama hætti og umboðsmaður Alþingis

Björn sagðist ekki sammála þeirri niðurstöðu umboðsmanns að hann hafi ekki fullnægt kröfum dómstólalaga eða sinnt rannsóknarskyldu í samræmi við stjórnsýslulög. „Ég hvorki skildi né skil dómstólalögin með þeim hætti sem umboðsmaður virðist gera. Ég mun hins vegar skoða ábendingar hans alvarlega, enda ber ég vissulega virðingu fyrir umboðsmanni.

„Mér er hins vegar ómögulegt að fara eftir skýringu sem ég hafði aldrei heyrt og umboðsmaður kynnti ekki til sögunnar fyrr en í áliti sínu rúmum átta mánuðum eftir að skipað hafði verið í embættið,“ sagði ráðherra.

Björn sagði og að með bréfi sem umboðsmaður hefði ritað honum með áliti sínu hafi hann ekki vikið að þessum álitaefnum heldur því, að hann hefði talið rétt að vekja athygli á tilteknum atriðum og þá með það í huga að tekin verði afstaða til þess hvort þörf sé á að fyrirkomulag við undirbúning og ákvarðanir um skipan hæstaréttardómara verði tekið til endurskoðunar og lagabreytingar gerðar af því tilefni, ef sú yrði niðurstaðan.

Sjálfsagt að leita leiða til að komast hjá þrasi og þrefi

Björn vísaði til ræðu á Alþingi í apríl mánuði þar sem hann sagðist ekki hafa talið rétt að breyta þessu fyrirkomulagi. Sjálfsagt væri þó að ræða málið eins og allt annað sem lyti að því að finna leið til að komast hjá þrefi og þrasi mánuðum saman um lögmæta ákvörðun um skipan manns í Hæstarétt. Einhver einn bæri þó ábyrgðina að lokum og það yrði að vera unnt að kalla hann til pólitískrar ábyrgðar. Spurningin væri sú hvort unnt væri að finna leið sem tryggði sæmilegan frið um málið eftir að ákvörðun hefði verið tekin.

Auk málshefjanda og ráðherra tóku þátt í umræðunni Steingrímur J. Sigfússon Vinstri grænum, Guðjón Arnar Kristjánsson Frjálslynda flokknum, Guðmundur Árni Stefánsson Samfylkingu, Sigurður Kári Kristjánsson Sjálfstæðisflokki, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir Samfylkingu og Davíð Oddsson forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert