Stjórnarandstaðan tilbúin að afgreiða fjölmiðlafrumvarpið til Alþingis

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna eru tilbúnir að afgreiða fjölmiðlafrumvarpið strax úr allsherjarnefnd og hefja um það aðra umræðu á Alþingi, að sögn Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar. Ekki þurfi frekari umfjöllun til að geta lokið vinnu nefndarinnar.

"Klukkan gengur á Alþingi," segir Össur. "Við höfum áréttað mikilvægi þess að farið verði að þeim fyrirmælum, sem í stjórnarskránni eru, að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin eins fljótt og auðið er. Sú skylda hvílir á þinginu að gera það, sem í valdi þess stendur, til að svo geti orðið. Við sögðum þingmönnum stjórnarliðsins í allsherjarnefnd að við þyrftum ekki frekari rannsóknar við á þessu máli og teldum rétt að það yrði tekið til umræðu hið fyrsta til að fara að fyrirmælum stjórnarskrárinnar."

Funda með Sam- keppnisstofnun

Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, segir að óskað hafi verið eftir að fá fulltrúa Samkeppnisstofnunar á fund nefndarinnar í dag. Telur hann mikilvægt að heyra hvernig starfsmennirnir túlki heimildir stofnunarinnar til að hlutast til um þróun á fjölmiðlamarkaði. Það sé gagnlegt með tilliti til þess að margir haldi því fram, m.a. þingmenn Samfylkingarinnar, að Samkeppnisstofnun eigi að gegna veigamiklu eftirlitshlutverki. Það eigi sérstaklega við eftir ákvörðun samkeppnisráðs frá því í júní sl. þess efnis að ekki sé ástæða til íhlutunar vegna hugsanlegra samsteypuáhrifa í kjölfar samruna Fréttar ehf. við Norðurljós hf. frá því í janúar.

Össur segist ekki leggjast gegn því að fleiri mæti á fund allsherjarnefndar. Það sé réttur þingmanna að kalla á ráðgjafa telji þeir þess þörf. Hins vegar hafi nú þegar dregist úr hömlu að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðsluna. Enginn sem hafi komið fyrir allsherjarnefnd telji það fara gegn stjórnarskránni að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin án nokkurra takmarkana. Alþingi þurfi að ljúka málinu sem fyrst svo hægt sé að auglýsa þjóðaratkvæðagreiðsluna, undirbúa kosningu utan kjörfundar og gerð kjörskráa.

Kynnt í stjórnarflokkunum

Bjarni segir að starfi nefndarinnar sé að ljúka. Eftir það muni sjálfstæðismenn gera grein fyrir starfinu innan Sjálfstæðisflokksins og framsóknarmenn innan Framsóknarflokksins. Stjórnarflokkarnir komi sér í kjölfarið saman um að halda áfram með málið á Alþingi og hefja aðra umræðu. Engar breytingar hafi verið ræddar á frumvarpinu að svo stöddu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert