Boðar tillögur um afgreiðslu fjölmiðlafrumvarpsins á morgun

Frá fundi allsherjarnefndar sem hófst á sjötta tímanum í dag.
Frá fundi allsherjarnefndar sem hófst á sjötta tímanum í dag. mbl.is/Árni Torfason

Líkur eru til þess að á fundi allsherjarnefndar Alþingis sem ráðgerður er klukkan 14 á morgun kynni meirihluti nefndarinnar hugmyndir um það hvernig afgreiðslu fjölmiðlafrumvarpsins verður háttað, að því er Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, sagði í kvöldfréttum RÚV.

Bjarni sagði störf nefndarinnar hafa þróast á þann veg að hann hefði ekki talið að líkur væru til þess að milli minnihlutans og meirihluta tækist nein sátt um málið. Annars vegar drægi hann þá ályktun af störfum nefndarinnar á þessu þingi og því hvernig málið þróaðist á vorþinginu. Ennfremur af yfirlýsingum sem fram hefðu komið inni í nefndinni og utan hennar. Af þeirri ástæðu hefði ekki verið farið efnislega ofan í það í dag hvar málið stæði hjá meirihluta nefndarinnar.

Felld var á fundinum tillaga minnihluta nefndarinnar um að frumvarp stjórnarandstöðuflokkanna um þjóðaratkvæðagreiðslu sem halda bæri 14. ágúst yrði afgreitt frá nefndinni þannig að hægt yrði að taka það til umræðu í þinginu. „Það þykja mér ákaflega merkileg og sorgleg vatnaskil í þessu máli,“ sagði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, í fréttum RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert