Vildi að lögreglan sækti parket í íbúð fyrrum kærustu

Karlmaður kom á lögreglustöð í Reykjavík um helgina og vildi kæra fyrrverandi sambýliskonu sína fyrir þjófnað. Höfðu þau slitið sambúð viku áður. Maðurinn heimtaði að lögregla færi í íbúð fyrrverandi konu sinnar og tæki þar parket af gólfinu þar sem hann hefði borgað 100.000 krónur í því. Einnig vildi hann fá fötin sín og þráðlausa internettengingu.

Fram kemur í yfirliti lögreglunnar um helstu verkefni helgarinnar, að rætt hafi verið við sambýliskonuna sem sagðist þegar hafa látið manninn fá fatnaðinn. Var kæru mannsins síðan vísað frá þar sem um einkamál væri að ræða.

Lögreglan segir, að helgin hafi verið tiltölulega róleg hjá lögreglunni í Reykjavík. Fáir voru á ferli í miðbænum aðfaranótt laugardags en heldur fleiri aðfaranótt sunnudags. Lögreglu var tilkynnt um 8 líkamsárásir og 6 fíkniefnamál komu upp.

Tilkynnt var um 56 umferðaróhöpp með eignatjóni um helgina. Nokkuð var um árekstra og óhöpp á föstudag vegna hálku. Á föstudagsmorgun rann bifreið í hálku á Njarðargötu við Bergstaðastræti og hafnaði á ljósastaur. Um hádegi á föstudag rann bifreið á sumardekkjum til í snjónum og lenti á annarri bifreið sem síðan kastaðist á þá þriðju. Þær tvær síðarnefndu voru mannlausar.

Síðdegis á föstudag var ekið á gangandi vegfaranda við Glæsibæ. Eldri maður sem gekk til suðurs yfir Gnoðarvog varð fyrir bifreið sem ók austur eftir Gnoðarvoginum. Maðurinn hlaut skurð á höfði og var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl.

Á föstudagskvöld ók bifreiða á steypta girðingu við Rauðalæk eftir að ökumaður missti stjórn á bílnum í hálku. Ökumaður og farþegi kenndu sér eymsla eftir höggið og ætluðu sjálfir á slysadeild. Dráttarbifreið fjarlægði bifreiðina af vettvangi.

Ekið var á gangandi vegfaranda á gatnamótum Bankastrætis og Lækjargötu aðfaranótt laugardags. Hann var fluttur á slysadeild, meiddur á ökla.

Um kvöldmat á laugardag varð árekstur með bifreið og reiðhjóli við Nordica hótel. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild til rannsóknar en meiðsli hans voru talin óveruleg.

Um helgina voru 30 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast fór var mældur á 121 km hraða á Miklubraut að Rauðarárstíg þar sem leyfilegur hraði er 60 km/klst. Var ökumaðurinn í spyrnu við annan ökumann og var sá mældur á 111 km/klst. Þá voru 3 ökumenn stöðvaðir, grunaðir um ölvun við akstur.

Bein stóði í hálsi barns
Um hádegisbil á föstudag var lögregla viðstödd mótmælastöðu kennara framan við Alþingishúsið. Nokkur kurr var í mótmælendum og borði sem settur var upp til að tryggja aðgengi að Alþingishúsinu var slitinn hvað eftir annað. Mótmælendur blésu í flautur og voru með háreysti. Lögreglan telur að kennarar hafi verið um 100 þegar mest var.

Um svipað leyti var óskað aðstoðar á leikskóla í austurborginni. Þar stóð bein í hálsi 5 ára gamals drengs. Þegar lögregla og sjúkralið komu á staðinn var beinið gengið niður. Móðirin kom á vettvang og fylgdi barninu á slysadeild með sjúkrabíl.

Þá var tilkynnt um innbrot í nýbyggingu í Grafarholti. Brotist var inn í kjallara byggingarinnar og þaðan tekin töluvert magn af pípulagningaefni. Efnið er nýtt á markaði og mjög dýrt. Einungis einn aðili selur þess tengi og ætti því að vera auðvelt að rekja slóð þeirra verði reynt að selja þau. Verktakinn mat tjónið á 3-400 þúsund krónur.

Um miðjan dag á föstudag var tilkynnt um mann sem fallið hafði í nýbyggingu. Sá slasaði féll um 2,5 metra niður í bráðabirgðarstiga milli hæða. Hann hlaut áverka á hægri hlið, öxl, hendi og var hruflaður á höfði. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.

Síðdegis á föstudag var tilkynnt um stuld á bifreið frá Broadway. Lyklum af bifreiðinni var stolið úr frakkavasa tilkynnanda innandyra á hótelinu, og bifreiðin horfin. Bifreiðin fannst skömmu síðar með lyklunum í en búið var að rífa úr henni tæki og aðra hluti. Skömmu síðar reyndi bílþjófurinn að versla fyrir greiðslukort sem hann hafði tekið úr bílnum og náðist hann í kjölfar þess.

Um kvöldmat á föstudag var lögregla og slökkvilið kallað til vegna elds í bifreið í Árbænum. Greiðlega gekk að slökkva eldinn. Stuttu seinna var tilkynnt um mann sem dottið hefði í tröppum bíóhúss í austurborginni. Maðurinn mun hafa rekið tærnar í og fallið niður tröppurnar, hann reyndi að bera fyrir sig höndina en tókst það ekki. Hann fékk högg á hnakkann og missti meðvitund í 2-3 mínútur. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið en hann var með sár fyrir aftan vinstra eyra og illt í vinstri ökkla.

Skömmu eftir miðnætti á föstudagskvöld var bifreið stöðvuð við eftirlit í Breiðholti.

3 bútar af ætluðu hassi fundust við leit í bifreiðinni. Tveir voru í bílnum og voru þeir látnir lausir að lokinni skýrslutöku.

Höndin fannst hvergi
Stuttu síðar barst lögreglu tilkynning frá gangandi vegfaranda um að partur af mannshönd lægi í gluggakistu á jarðhæð á húsi í miðborginni. Tilkynnandi sagði ungir menn sem voru á leið niður í kjallarann hefðu sagt sér að þetta væri bara gervihönd en hafði ekki alveg sannfærst og lét því lögreglu vita. Lögreglumenn fundu ekkert í líkingu við hönd i neinum glugga þarna í nágrenninu.

Síðar um nóttina barst lögreglu tilkynning um að öryggisvörður hefði slasað sig innandyra í líkamsræktarsal í austurborginni. Þar höfðu tveir öryggisverðir verið við eftirlit þegar annar þeirra ákvað að prófa fitness-braut sem þar var uppsett. Hann klifraði upp í einhverja súlu en féll niður þegar hann var kominn í 5 metra hæð. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl og er talinn handleggsbrotinn á hægri hendi. Þá var hann einnig með áverka á höku og blæddi úr eyra hans.

Aðfaranótt sunnudags var lögregla og slökkvilið kölluð að íbúð í Breiðholtinu en þar hafði ársgamalt barn fengið í sig 220 volta straum. Drengurinn hafði lagst með höfuðið ofan á lampasnúru, einhver útleiðsla var í snúrunni og fékk hann straum í höfuðið rétt ofan við eyra. Rafmagninu sló út. Drengurinn var skoðaður af lækni á neyðarbílnum en ekki þótti ástæða til flytja hann á slysadeild til frekari skoðunar.

Stuttu síðar var tilkynnt um 4 ára stúlku sem hafði bankað upp hjá nágranna sínum en foreldrar stúlkunnar voru ekki heima. Er lögreglu bar að var faðir stúlkunnar að koma heim. Var hann ölvaður og kvaðst hafa skroppið að heiman í smástund. Stúlkan hafði vaknað upp ein heima og hafði grátið dágóða stund áður en hún fór til nágrannans.

Snemma á sunnudagsmorgun var tilkynnt um slagsmál á bensínstöð í austurborginni. Þar hafði bílhurð rekist utan í annan bíl og mátti sjá minniháttar ákomu eftir hana. Einn málsaðila tapaði sér við þetta atvik og kom fyrst til átaka milli hans og fólks á vettvangi og síðan við lögreglumenn sem urðu að færa hann í handjárn þar til hann róaðist. Aðilar fóru síðan af vettvangi

Á sunnudag barst lögreglu tilkynning frá öryggisgæslu Kringlunnar um skemmdarverk á hringhurð í sameign Kringlunnar við Hard Rock. Hópur fólks um þrítugt gerði það að leik sínum að stoppa hurðina meðal annars með kústi. Hurðin stöðvaðist með þeim afleiðingum að mótor hurðarinnar bræddi úr sér. Fólkið var farið er lögregla var kvödd til en atburðurinn náðist á myndband, auk kreditkortanúmera þeirra gerenda liggja fyrir. Áætlað tjón vegna athæfisins er um 200 hundruð þúsund krónur.

Aðfaranótt mánudags var tilkynnt um að maður hafi verið stunginn með hníf í bakið á Kleppsveginum. Maðurinn hlaut stungusár á hægra herðablaði og féll hægra lunga saman. Kona var handtekin, grunuð um verknaðinn.

Á mánudagsmorgun var tilkynnt um brotna rúðu í fyrirtæki í miðbænum. Í ljós kom að brotist hafði verið inn í fyrirtækið og þaðan stolið úrum og skartgripum.

mbl.is