Bjóðendur munu eiga þess kost að breyta eigin skipulagi

Framkvæmdanefnd um einkavæðingu sendi fyrir helgi bjóðendum í hlut ríkisins í Símanum bréf þar sem óskað er eftir að þeir tilgreini um möguleg eignatengsl eða tengsl við samkeppnisaðila, skv. verklagsreglum nefndarinnar. Frestur til að skila inn svörum rann út á hádegi í gær.

Stefán J. Friðriksson, starfsmaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu, vildi í gær ekki tilgreina hvort einhverjir uppfylltu ekki skilyrði nefndarinnar, það yrði tilkynnt samhliða hvort allir stæðust reglurnar. Stefán sagði að svör hefðu ekki borist frá öllum aðilum og ákveðið hefði verið að veita svigrúm í einhverjum tilvikum þar eð ekki náðist í alla hlutaðeigandi aðila. Fjórtán tilboð bárust í hlut ríkisins í Símanum frá 37 fjárfestum, innlendum og erlendum. Bréf frá einkavæðingarnefnd voru send öllum aðilum.

"Við getum ekkert tjáð okkur um þetta á þessu stigi. Það verður tilkynnt samhliða hvort allir standist reglurnar. Þetta er á ábyrgð þeirra sem gefa upplýsingarnar," sagði Stefán.

Hann sagði unnið að því að reyna að tilkynna um endanlega bjóðendur í Símann eins fljótt og kostur væri, en endanleg tilboð verða opnuð í júlí.

Hann áréttar að ekki hafi verið skilyrði í óbindandi tilboðunum sem nú liggja fyrir að fjárfestingarhópar væru fullmótaðir, fjárfestar hafi frest til þess fram að skiladegi í bindandi tilboðum í Símann sem er í júlí.

Vel geti gerst að hópar sem hafi sent inn óbindandi tilboð breyti því, tengist öðrum fjárfestum eða nýr aðili sem ekki var inni í óbindandi tilboðinu bætist í hópinn.

Komi upp tilvik þar sem eignatengsl núverandi bjóðenda samræmast ekki reglum nefndarinnar er því möguleiki á að aðilar breyti sínu skipulagi, segi sig úr stjórnum fyrirtækja eða geri aðrar ráðstafanir, að sögn Stefáns.

Heimilt að hafna tilboðum sem draga úr virkri samkeppni

Samkvæmt verklagsreglum einkavæðingarnefndar um útboð og sölu ríkisfyrirtækja er heimilt að setja hámark á hlutafjárkaup hvers aðila, eða fjárhagslega tengdra aðila, til að dreifa eignarhaldi að fyrirtækjum sem seld eru samkvæmt almennu hlutafjárútboði. Heimilt er að hafna tilboði frá aðilum ef sala til þeirra er líkleg til að draga úr virkri samkeppni á þeim markaði sem fyrirtækið starfar á og ef sala samræmist ekki settum markmiðum þannig að líklegt sé að atvinnugreinin bíði skaða af.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »