Álíka margir ánægðir og óánægðir með sölu Símans

Álíka margir eru ánægðir með sölu Símans og óánægðir, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup. Tæplega 39% eru ánægð og um 40% eru óánægð. Í könnun Gallup kom fram mikill munir á afstöðu til sölunnar eftir stjórnmálaskoðunum og búsetu en landsbyggðarfólk er óánægðara með söluna en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Rúmlega helmingur eða 53% þeirra sem styðja ríkisstjórnina er ánægður með sölu Símans en einungis tæplega 30% þeirra sem styðja hana ekki eru ánægð. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru ánægðastir með söluna en tæplega 58% þeirra eru ánægðir með hana en kjósendur Vinstri grænna eru síst ánægðir, aðeins um 17% þeirra eru ánægðir með söluna.

Munur er á skoðunum fólks eftir aldri. Eftir því sem fólk er eldra því óánægðara er það með sölu Símans. Í aldurshópnum 18-24 ára er tæplega 31% óánægt en í aldurshópnum 55-75 ára er naumur meirihluti, eða rúmt 51%, óánægður.

Einnig er munur á viðhorfi til sölu Símans eftir búsetu. Landsbyggðarfólk er óánægðara með söluna en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Rúmlega 48% íbúa landsbyggðarinnar eru óánægð með söluna en um 32% eru ánægð. Á höfuðborgarsvæðinu eru um 34% óánægð en tæplega 44% eru ánægð.

Þeir sem eru óánægðir með sölu Símans sögðu flestir, eða tæplega 31%, að það væri vegna þess að þeir teldu að Síminn ætti að vera í eign ríkisins eða almennings. Um 21% sögðust vera óánægð vegna þess að þetta yrði tekjumissir fyrir ríkið. Tæplega 12% höfðu áhyggjur af því að salan myndi leiða til versnandi þjónustu og þá sérstaklega á landsbyggðinni.

Flestir vilja borga skuldir
Flestir telja mikilvægast að verja söluandvirðinu í að borga skuldir, eða um 37%. Um 12% finnst mikilvægast að verja peningunum í heilbrigðiskerfið og 11% finnst að peningarnir eigi að fara í samgöngubætur.

Mikill munur er á viðhorfum karla og kvenna til þess hvernig á að verja söluandvirði Símans. Tæplega 47% karla telja að það sé mikilvægast að verja peningunum í að borga skuldir en rúmlega 12% finnst að þeir eigi að fara í heilbrigðiskerfið eða hátæknisjúkrahús. Um 26% kvenna finnst mikilvægast að borga skuldir en tæplega 29% finnst mikilvægast að verja peningunum í heilbrigðiskerfið eða hátæknisjúkrahús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert