Íslenska sjónvarpsfélaginu gert að afhenda sjónvarpsmerki Enska boltans

Samkeppniseftirlitið hefur gert Íslenska sjónvarpsfélginu að afhenda öðrum dreifingaraðilum sjónvarpsmerki …
Samkeppniseftirlitið hefur gert Íslenska sjónvarpsfélginu að afhenda öðrum dreifingaraðilum sjónvarpsmerki Enska boltans. Reuters

Samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Íslenska sjónvarpsfélagið hafi brotið gegn ákvörðun samkeppnisráðs með því að neita að afhenda Íslandsmiðli ehf. og Tengi hf. sjónvarpsmerki Enska boltans.

Tók Samkeppniseftirlitið í dag ákvörðun til bráðabirgða þar sem Íslenska sjónvarpsfélaginu eru gefin fyrirmæli um að afhenda sjónvarpsmerkið þegar í stað til þeirra fyrirtækja á fjarskiptamarkaði, sem þess óska og uppfylla þær kröfur sem félaginu er heimilt að gera.

Samkeppniseftirlitið telur að Íslenska sjónvarpsfélagið, sem rekur sjónvarpsstöðvarnar Skjá einn og Enska boltann, hafi brotið gegn skilyrðum sem sett voru í ákvörðun samkeppnisráðs frá 11. mars 2005. Sú ákvörðun fól í sér skilyrði fyrir því að Landssíma Íslands væri heimilt að kaupa Íslenska sjónvarpsfélagið.

Í bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Landssími Íslands hafi ekki einkarétt til að dreifa Enska boltanum á fjarskiptakerfum fyrirtækisins. Er fyrirmælum beint til Íslenska sjónvarpsfélagsins í því skyni að vernda samkeppni á m.a. fjarskiptamarkaði.

Eftirsóknarvert sjónvarpsefni
Aðdragandi málsins er sá, að þann 11. mars 2005 tók samkeppnisráð ákvörðun vegna samruna Landssíma Íslands og Íslenska sjónvarpsfélagsins. Fram kemur í ákvörðuninni að Íslenska sjónvarpsfélagið búi yfir eftirsóknarverðu sjónvarpsefni, einkum ensku úrvalsdeildakeppninni í knattspyrnu, og tilgangur yfirtöku Landssímans hafi verið að tryggja félaginu eftirsóknarvert sjónvarpsefni til dreifingar um dreifikerfi þess.

Það var mat samkeppnisráðs að Landssíminn myndi með yfirtöku á Íslenska sjónvarpsfélaginu auka eða styrkja markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir bandbreiðar Internettengingar og -þjónustu. Jafnframt var talið að samruninn myndi takmarka möguleika nýrra aðila til þess að komast inn á fjarskipta-, sjónvarps- og útvarpsmarkaði. Einnig var talin hætta á að valkostum neytenda myndi fækka. Sökum þessa var talin ástæða til að grípa til íhlutunar vegna þessa samruna.

Skilyrði sett til að vinna gegn skaðlegum áhrifum samrunans
Til þess að vinna gegn skaðlegum áhrifum samrunans voru honum sett ýmis skilyrði í ákvörðun samkeppnisráðs. Samkvæmt þeim er Íslenska sjónvarpsfélaginu m.a. gert skylt að afhenda sjónvarps- og útvarpsmerki félagsins í opinni eða læstri dagskrá til m.a. keppinauta Landssímans á fjarskiptamarkaði ef skilyrði þau sem tiltekin eru í ákvörðuninni eru uppfyllt. Að öðrum kosti var talin hætta á m.a. að Landssíminn styrkti enn frekar markaðsyfirráð sín á fjarskiptamarkaði með þeim hætti, að hinu eftirsóknarverða sjónvarpsefni Íslenska sjónvarpsfélagsins yrði eingöngu dreift um fjarskiptakerfi í eigu Landssímans.

Íslenska sjónvarpsfélagið hafði í samrunatilkynningu til samkeppnisyfirvalda lýst áætlun um að hefja rekstur á markaði fyrir áskriftarsjónvarp. Í þeim tilgangi að veita fyrirtækinu tækifæri til að festa rætur á því sviði var því veitt heimild til 1. júlí 2007 að skilyrða afhendingu á sjónvarpsefni sem sent er út í lokaðri dagskrá við það að myndlykill frá fyrirtækinu væri notaður til móttöku á því sjónvarpsefni.

Almenn skylda óháð dreifileið
Samkeppniseftirlitið segir, að þessi skilyrði þýði að Íslenska sjónvarpsfélaginu sé almennt skylt að afhenda sjónvarpsdagskrá Enska boltans til fyrirtækja í sjónvarpsdreifingu og í Internetþjónustu ef viðkomandi fyrirtæki uppfylla málefnalegar kröfur um t.d. gæði útsendingar. Þessi skylda sé almenn og óháð þeirri dreifileið, sem fyrirtæki sem óskar eftir Enska boltanum, notar.

Segir stofnunin, að þar sem Enski boltinn sé seldur í áskrift sé Íslenska sjónvarpsfélaginu samkvæmt ákvörðun samkeppnisráðs tímabundið heimilt að krefjast þess gagnvart þessum fyrirtækjum að myndlykill þess sé notaður til móttöku neytenda á Enska boltanum.

Landssíminn ekki með einkarétt á að dreifa Enska boltanum
Samkeppniseftirlitið segir, að vísbendingar hafi komið fram um það að undanförnu, að hætta sé á því að markmiðið með ofangreindri ákvörðun samkeppnisráðs náist ekki. Eitt þeirra álitaefna sem upp hafi komið sé sú háttsemi Íslenska sjónvarpsfélagsins og Landssíma Íslands að halda því fram að ákvörðun samkeppnisráðs veiti Landssímanum einkarétt á að dreifa Enska boltanum um dreifikerfi félagsins, þ.e. Breiðbandið og ADSL-kerfi þess. Hafi Landssíminn m.a. fullyrt þetta í opinberri umræðu.

Með bréfum Samkeppniseftirlitsins frá 25. júlí og 11. ágúst sl. var Landssímanum og Íslenska sjónvarpsfélaginu bent á það að ákvörðun samkeppnisráðs veiti fyrirtækjunum ekki umræddan einkarétt til að dreifa Enska boltanum. Óskað var eftir upplýsingum um þau fyrirtæki sem farið hefðu fram á dreifingu á sjónvarps- og útvarpsefni Íslenska sjónvarpsfélagsins.

Samkeppniseftirlitið segir, að gögn sem bárust frá Íslenska sjónvarpsfélaginu sýna að fyrirtækið Tengir hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá að dreifa m.a. Enska boltanum á Akureyri. Fyrirtækið Íslandsmiðill hafi einnig óskað eftir þessu sjónvarpsefni.

Í bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að umrædd gögn sýni að Íslenska sjónvarpsfélagið hafi hafnað því að afhenda Tengi og Íslandsmiðli sjónvarpsdagskrá Enska boltans á þeirri forsendu einni að Landssími Íslands hefði einkarétt á þessari dreifingu. Ekki hafi þannig af hálfu Íslenska sjónvarpsfélagsins verið vísað til neinna þeirra atriða sem ákvörðun samkeppnisráðs tiltaki og réttlætt geti höfnun á ósk um dreifingu.

Ætlað að styrkja markaðsráðandi stöðu Símans á fjarskiptamarkaði
Að mati Samkeppniseftirlitsins er því sennilegt að Íslenska sjónvarpsfélagið hafi með þessum aðgerðum brotið gegn fyrirmælum í ákvörðun samkeppnisráðs frá því í mars sl. Segir stofnunin, að tölvupóstur, sem Landssími Íslands sendi Tengi 27. maí sl., gefi sterka vísbendingu um að tilgangur framangreindra sennilegra brota Íslenska sjónvarpsfélagsins hafi verið að styrkja markaðsráðandi stöðu Landssímans á fjarskiptamarkaði.

Samkeppniseftirlitið segir, að Íslenska sjónvarpsfélagið og Landssími Íslands haldi því enn fram að Landssíminn hafi einkarétt á því að dreifa sjónvarpsdagskrá Enska boltans. Þetta hafi félögin gert þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið hafi ítrekað bent þeim á að ákvörðun samkeppnisráðs veiti þeim ekki umræddan einkarétt. Þar sem Íslenska sjónvarpsfélagið byggi enn á þessum einkarétti sé veruleg hætta á því að félagið haldi áfram að hafna beiðnum um afhendingu sjónvarpsmerkja á þessum grunni. Segist Samkeppniseftirlitið telja, að það geti haft verulega skaðleg áhrif á samkeppni ef ákvörðun samkeppnisráðs nái ekki fram að ganga að öllu leyti.

Í þessu sambandi verði einnig að hafa í huga að nú eigi sér stað öflug kynningarherferð á Enska boltanum. Ef ekkert sé að gert sé hætta á því að Landssíminn styrki ráðandi stöðu sína á fjarskiptamarkaði þvert gegn meginmarkmiði ákvörðunar samkeppnisráðs. Í ljósi þessa alls sé að mati Samkeppniseftirlitsins nauðsynlegt að beina þegar í stað fyrirmælum til Íslenska sjónvarpsfélagsins sem tryggi það að félagið fari að skyldu sinni til að afhenda sjónvarpsmerki þannig að m.a. keppinautar Landssímans á fjarskiptamarkaði geti dreift Enska boltanum og þar með verndað eða bætt stöðu sína á fjarskiptamarkaðnum.

Óviðunandi að tæknileg vandamál hindri framkvæmd
Í bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins segir að komið hafi fram vísbendingar um að tæknilegir örðugleikar kunni að hindra framkvæmd á ákvörðun samkeppnisráðs. Vandamál þessi kunni meðal annars að felast í tengingu dreifikerfa keppinauta Íslenska sjónvarpsfélagsins og Landssímans við myndlykil Íslenska sjónvarpsfélagsins. Að mati Samkeppniseftirlitsins sé óviðunandi að tæknileg vandamál af þessu tagi geti leitt til þess að ákvörðunin nái ekki tilgangi sínum og Landssími Íslands efli markaðsráðandi stöðu sína. Hér skipti og máli að sú afstaða Íslenska sjónvarpsfélagsins og Landssímans, að félögin hafi einkarétt á dreifingu Enska boltans, hafi skapað erfiðleika við að ná markmiðinu með umræddri ákvörðun.

Í ljósi þessa segist Samkeppniseftirlitið telja brýna nauðsyn að beina fyrirmælum til Íslenska sjónvarpsfélagsins þess efnis, að komi fram vísbendingar um tæknileg vandamál við að afhenda og dreifa sjónvarpsmerki til þeirra sem þess óska og uppfylla málefnaleg skilyrði til þess, verði þau leyst hið fyrsta og skylda Íslenska sjónvarpsfélagsins til að afhenda sjónvarpsmerki verði þannig að öllu leyti virk. Nauðsynlegt sé í því sambandi að leggja upplýsingaskyldu á Íslenska sjónvarpsfélagið til að Samkeppniseftirlitið geti fylgst með því að félagið afgreiði beiðnir um dreifingu með eðlilegum hætti og einnig fylgst með því að Íslenska sjónvarpsfélagið og fyrirtæki sem óska eftir dreifingu á sjónvarpsmerkjum þess grípi án tafar til eðlilegra ráðstafana til að leysa tæknileg vandkvæði.

Bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins gildir til 15. október nk. Fram kemur í henni að ef fyrir liggi á þeim tíma að tæknileg vandkvæði tengd tengingu við myndlykla Íslenska sjónvarpsfélagsins komi í veg fyrir að ákvörðun samkeppnisráðs nái markmiði sínu megi Íslenska sjónvarpsfélagið búast við því að heimild þess til að skilyrða afhendingu Enska boltans við það að myndlykill frá fyrirtækinu sé notaður verði felld niður.

Samkeppniseftirlitið tekur fram að hjá því er til meðferðar krafa Og fjarskipta hf. um að framangreind ákvörðun samkeppnisráðs um samruna Landssíma Íslands og Íslenska sjónvarpsfélagsins verði endurupptekin. Og Fjarskipti krefjast í því máli einnig að ákvörðun samkeppnisráðs frá 23. mars 2005, þar sem samruni Og fjarskipta, 365 ljóvakamiðla ehf. og 365 prentmiðla ehf. var heimilaður með skilyrðum, verði endurupptekin. Jafnframt er til meðferðar erindi frá Landssímanum þar sem kvartað er yfir meintu broti 365 ljósvakamiðla á ákvörðun samkeppnisráðs frá 23. mars 2005.

mbl.is