Baráttufundur kvenna hafinn á Ingólfstorgi

Tugir þúsunda kvenna eru í miðborg Reykjavíkur en baráttufundur fer …
Tugir þúsunda kvenna eru í miðborg Reykjavíkur en baráttufundur fer nú fram á Ingólfstorgi. mbl.is/Júlíus

Baráttufundur kvenna er hafinn á Ingólfstorgi en áður var farin kröfuganga niður Skólavörðustíg, Bankastræti og eftir Austurstræti. Ljóst er að tugir þúsunda manna eru nú í miðborginni en mannfjöldi er á öllum götum í nágrenni Ingólfstorgs.

Valgerður H. Bjarnadóttir, bæjarfulltrúi VG á Akureyri, flutti fyrsta ávarpið á fundinum og sagði m.a. að síðustu 30 ár hafi tekist á tvö ólík sjónarmið í kvennabaráttunni. Annað miði að því að konur aðlagist ríkjandi kerfi, læri á verkfæri karlveldisins, til að öðlast fullgild réttindi. Hitt miði að því að móta nýtt kerfi, sem byggir á því að konur læri á og miðli eigin hæfni og þekkingu um leið og þær taki til sín þann hluta ríkjandi arfs sem sé til gagns fyrir alla.

„Skilgreining reynsluheims kvenna var hluti þessa ferlis, og um tíma vorum við iðnar við að breyta... við hentum brjóstahöldurum, gengum í rauðum sokkum, gáfum börnum brjóst á fundum, prjónuðum í tímum,... settum spurningamerki við flestar viðteknar venjur. Erum við að fjarlægjast þetta sjónarmið um of á síðari árum? Erum við e.t.v. orðnar of duglegar við að aðlaga okkur ríkjandi kerfi?" spurði Valgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert