Nefnd fjallar um hollara mataræði og aukna hreyfingu

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, hefur skipað nefnd sem greina á vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi og koma með tillögur að samræmdum aðgerðum til að taka á vandamálum sem tengjast þessu.

Alþingi ályktaði 11. maí 2005 að fela ríkisstjórninni að undirbúa samræmdar aðgerðir til eflingar lýðheilsu á Íslandi með hollara mataræði og aukinni hreyfingu. Sagði jafnframt að faghópur á vegum forsætisráðuneytisins skyldi settur á laggirnar til að greina þann vanda, bæði orsakir og afleiðingar.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu kemur við greiningu á orsökun eigi að horfa á marga þætti, svo sem áhrif mataræðis og lífsstíls nútíma fjölskyldna, áherslur í hreyfingu og starfi og aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Ennfremur verði hugað að verðlagsmálum, aðstöðu almennings til íþrótta, útivistar og hreyfingar, skipulagi byggðar og samgangna og hlutverki starfsmanna skóla og heilbrigðisþjónustu við greiningu á vanda einstaklinga í forvarnarráðgjöf til foreldra og eftirfylgni aðgerða.

Við mat á afleiðingum verði meðal annars horft til áhrifa á einstaklinginn, heilbrigði hans og félagslega stöðu, á atvinnulífið og á heilbrigðis- og tryggingakerfið. Þá skuli heildarkostnaður samfélagsins af afleiðingum vandans metinn.

Að lokinni greiningu á orsökum og afleiðingum þessa skal hópurinn leggja fram tillögur að samræmdum aðgerðum og framkvæmdaáætlun sem lagðar verði fyrir ríkisstjórnina í apríl 2006.

Formaður nefndarinnar er Þorgrímur Þráinsson, blaðamaður, en aðrir í nefndinni eru Sigurbjörn Sveinsson, formaður Læknafélags Íslands, Jón Óttar Ragnarsson, næringarfræðingur, Halla Karen Kristjánsdóttir, íþróttakennari, Anna Ólafsdóttir, forstjóri Lýðheilsustöðvar, Sæunn Stefánsdóttir aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, Árni Einarsson uppeldis- og menntunarfræðingur, Petrína Baldursdóttir, leikskólastjóri og Valur N. Gunnlaugsson, matvælafræðingur.

mbl.is